145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að segja hér örfá orð í lok umræðunnar og byrja á því að þakka fyrir gott samstarf við nefndina, fjárlaganefnd vegna breytinga sem að þessu sinni eru töluvert miklar og kannski óvenjumiklar yfir þingveturinn allt fram á síðustu stundu hér síðasta dag. En það hefur þegar allt er saman tekið gengið ágætlega, og aðeins um það kannski nánar. Ég ætla að lýsa þeirri skoðun minni undir lok umræðunnar að við þurfum að komast út úr því fari sem við höfum verið í í fjárlagaumræðunni í þinginu á þessum þingvetri og færa fjárlagaumræðuna framar í dagskránni þannig að við náum að loka fjárlagatengdum málum fyrr, eins og var alltaf venjan að gera hér áður fyrr. (Gripið fram í.) Það verður að takast betra samkomulag milli þingflokkanna á þinginu um heildarumfang umræðunnar. Við megum ekki gera það að fastri venju í þinginu að fjárlagaumræðan geti tekið allt að 100 klukkustundir. Það er auðvelt fyrir mig að segja þetta hér úr þeirri stöðu sem ég er í vegna þess að það hentar ágætlega fyrir ríkisstjórnina að þetta klárist hratt. En þegar betur er að gáð hentar það öllum að samkomulag sé um það hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig frá ári til árs. Við skulum gera það í tíma næst að reyna að tryggja það samkomulag áður en ágreiningsmál rísa um einhver einstök atriði í fjárlögunum og láta á það reyna hvort ekki er hægt að koma þingvenjunni aftur inn á réttar brautir um þetta mál. Nóg um það.

Í nefndaráliti meiri hlutans er farið vel yfir þær miklu breytingar sem eru að verða við 3. umr. Það er svo sem ekki hægt að koma hér og fagna sérstaklega einu og sama málinu aftur og aftur. En ég ætla samt að gera það út frá þeim vinkli sem blasir við okkur, þ.e. haftalosunin er mjög áberandi við 3. umr.

Þegar við settum skattinn í sumar, stöðugleikaskattinn, með sérstökum lögum þá gátum við ekki séð fyrir hvernig það mál mundi enda, þ.e. hvort við mundum fá og vera með raunverulegan skattstofn á árinu 2016 eða hvort það kæmi til stöðugleikaframlaga. Nú er sú mynd orðin skýr og það birtist okkur hér með þeim hætti að á tekjuhlið ríkisfjármálanna koma 338,9 milljarðar. (Gripið fram í.) Sem sagt samtals stöðugleikaframlög á tekjuhlið ríkissjóðs. Þetta hljóta að teljast söguleg tíðindi.

Ég vil lýsa ánægju með þá samstöðu sem hefur verið í þinginu frá upphafi um hvernig við þyrftum að halda utan um þennan þátt málsins, þ.e. að þessu verði ráðstafað með skynsamlegum hætti þannig að það nýtist við stjórn efnahagsmála til uppgreiðslu skulda og að huga þurfi að því að þetta valdi ekki þensluáhrifum. Allir hljóta að vera sammála um að í þessu felast alveg gríðarleg tíðindi. Þetta er farsæl lausn á slitum slitabúanna, lokun þeirra með nauðasamningi sem birtist okkur með þetta jákvæðum hætti. Það er líklega ekkert ríki í Evrópu sem færir á tekjuhlið sína undir þinglegri meðferð annað eins hlutfall af heildartekjum og hér á við. Með þessu fara heildartekjur ríkisins í fyrsta skipti í sögunni yfir 1.000 milljarða. Þess er ekki að vænta að það gerist aftur á árinu 2017 vegna þess að það mun muna það miklu um þetta eitt og sér.

En ég get ekki látið hjá líða að minnast á hversu ótrúleg tíðindi eru í þessu fyrir okkur og mikil tækifæri ef rétt er haldið á málum til að láta ríkisfjármálin til mjög langrar framtíðar njóta góðs af, þannig að til dæmis vaxtabyrði verði mun minni en ella hefði orðið.

Þá er kannski komið að þeim punkti sem mig langaði sérstaklega til að ræða, sem er staða ríkisfjármálanna eftir að þetta er allt komið fram. Hver er þá staðan í ríkisfjármálunum? Staðan í mínum huga er þessi: Við höfum náð tökum á ríkisfjármálunum þannig að við erum í þriðja skiptið með hallalaus fjárlög. Afkoman hefur verið töluvert umfram væntingar síðastliðin tvö ár og það mætti kannski segja þrjú ár. En hér erum við enn og aftur með hallalaus fjárlög. Við höfum því náð tökum á því að við erum hætt að safna skuldum. Það er mjög jákvætt.

Engu að síður er það svo að heildarafkoma hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, á þessum stað í hagsveiflunni er í raun og veru óviðunandi. Hún er ekki nægilega mikil. Hvernig stendur á því? Mjög mikilvægt er að átta sig á því. Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að ákveðnir útgjaldaliðir hafa vaxið töluvert mikið. Sá útgjaldaliður sem er fyrirferðarmestur í fjárlagafrumvarpinu þegar allt er saman tekið er sá sem tengist launaliðnum. Launa- og verðlagsbreytingar.

Með öðrum orðum, við erum að nýta uppganginn í efnahagslífinu til þess að skapa svigrúm fyrir verulega miklar launahækkanir. Þegar menn spyrja: Hvers vegna stendur á því að við höfum ekki meira fjármagn laust til þess að setja í vegi, brýr og hafnir, ný mannvirki sem bíða þess að verða reist eða viðhald vega o.s.frv.? Hvers vegna höfum við ekki meiri fjármuni til þess að mæta þörfinni í velferðarkerfinu, hvort sem er á sjúkrahúsum, í heilsugæslunni eða annars staðar í velferðarkerfinu? Hvers vegna höfum við ekki meira fjármagn til þess að styðja enn betur við rannsóknir, vísindi og þróun nýrra hugmynda í vísindasamfélaginu, nú eða bara einhvers staðar annars staðar í menntakerfinu? Hvers vegna er það að við þurfum alltaf að velta hverri krónu fyrir okkur? Ja, það er meðal annars vegna þess að við erum búin að taka ákvörðun, beint og óbeint, að nota svo stóran hluta af svigrúminu í það að bæta kjörin í gegnum laun og samninga. Við höfum samið og fengið gerðardóm á þessu ári, þannig að verulegur hluti, bróðurparturinn af öllu svigrúminu sem hefur verið að skapast hefur verið notaður í laun. Það fylgir því þegar laun eru hækkuð jafn mikið og nú hefur verið gert að bætur hækka líka verulega. Þær eru að hækka núna eins og við vitum um 9,7%.

Segja má að viðbrögð Seðlabankans með vaxtahækkunum við því sem hefur verið að gerast eru að beina því til ríkisins að finna betra svigrúm fyrir öllum þessum launahækkunum. Í raun og veru hefur Seðlabankinn sagt með vaxtahækkunum og þeim skilaboðum sem hafa fylgt þeim: Hér er verið að gera of mikið í einu. Í raun og veru er verið að segja: Ef til stendur að hækka launin þetta mikið þá þarf að skera niður til að skapa svigrúm fyrir því.

Við erum ekki að gera það hér. Við erum að reyna að láta þetta ganga fram þannig að við fáum þrátt fyrir þessa gríðarlega miklu breytingu einhvers konar mjúka lendingu. Við munum áfram eiga gott samstarf, vona ég, við aðila vinnumarkaðarins. Við munum leggja mikið á okkur til þess að halda því samstarfi áfram. Ég vísa til þessa svonefnda SALEK-samkomulags í því efni. Það mun reyna mjög á það núna í janúar hvernig tekst til með að leggja grunn að mjúkri lendingu þannig að við fáum áframhald í þá vinnu út líftíma kjarasamninganna. En það er alveg ljóst að þetta verða mjög krefjandi tímar.

Þegar við komum síðan í vor með ríkisfjármálaáætlun sem horfir til næstu ára og í framhaldinu fjárlagafrumvarp næsta haust, er ekki við því að búast að það verði stórkostlegt svigrúm til að bæta í einhverja útgjaldaflokka. Ég vil líka taka fram, ég er svo sem ekkert að halda því fram að það sé alltaf eina rétta leiðin til að gera betur. Það má velta fyrir sér öðrum leiðum, færa til fjármagn, hagræða og við eigum að halda áfram að finna leiðir til að hagræða og nýta hverja krónu eins vel og kostur er, en að því marki sem menn vilja skapa slíkt svigrúm. Við munum þurfa að gera það, við erum nauðbeygð til þess meðal annars út af lýðfræðilegri þróun í landinu. Það eru fleiri að ná hærri aldri og meira álag verður bæði á heilbrigðiskerfið og almannatryggingar í framtíðinni af þeim sökum, þótt annað vinni svo sem með okkur eins og uppbygging lífeyriskerfisins.

Vilji menn finna þessa fjármuni til að gera betur þá er svarið auðfundið í þessu fjárlagafrumvarpi. Það liggur í því að frá og með áramótum eða frá því að við tökum við eignarhlutnum í Íslandsbanka mun ríkið halda á yfir 400 milljörðum af fjármálalegum eignum. Þetta er einsdæmi í Vestur-Evrópu að minnsta kosti, þar sem ég þekki til. Ég hygg að það sé ekkert land sem við getum fundið til samanburðar þar sem menn halda í ríkiseign um 25% af landsframleiðslu í fjármálalegum eignum. Ég er nokkuð viss um að ekki er hægt að finna neitt slíkt dæmi. Vissulega eru dæmi þess að ríkiseign sé á hlutum í fjármálafyrirtækjum, samanber í Bretlandi þar sem menn eru reyndar að reyna að selja sig aftur niður, og í Hollandi og víðar. Þar eru menn yfirleitt að tala um eignarhluti sem liggja einhvers staðar í kringum 3–5% af landsframleiðslu. Við erum komin í 25% af landsframleiðslu. Alveg gríðarlegar fjárhæðir.

Veltum þá fyrir okkur hvað það mundi þýða fyrir okkur ef vel tækist til við að losa um þessa hluti, þessa eignarhluti, í þeim tilgangi að borga niður skuldir. Ja, það má segja sem þumalputtareglu að fyrir hverja 100 milljarða muni að minnsta kosti nást niður vaxtakostnaður um 5 milljarða. Við eigum þarna möguleika eftir því hversu langt menn vilja ganga í að höggva niður um alla framtíð, að minnsta kosti á líftíma þessara lána sem þarna eiga í hlut, 10–15 milljarða, jafnvel 20 milljarða af vaxtakostnaði. Það er gríðarlegt svigrúm sem fylgir því á hverju ári um alla framtíð.

Það er rétta leiðin í mínum huga til að skapa svigrúm fyrir mörg af þessum fjárfestingarverkefnum sem við þurfum að ráðast í. Má nefna þar ýmislegt sem er í pípunum og við vitum að við þurfum fyrr eða síðar að taka ákvörðun um. Ég gæti nefnt þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna sem munu kosta milljarða. Ég gæti nefnt fyrirhuguð kaup á ferju fyrir Herjólf. Ég gæti nefnt byggingar eins og Hús íslenskra fræða, sem bíður þess að rísa, og margar brýnar aðgerðir í vegamálum og annað þess háttar. Að ekki sé nú minnst á Landspítalann sjálfan og það að byggja betur um þá starfsemi.

Leiðin til að skapa svigrúm fyrir þetta liggur í því að selja af eignarhlið ríkisins, greiða niður skuldir og það sem fylgir líka með lægri vaxtagjöldum er stórbætt lánshæfi ríkisins. Lánshæfi ríkisins skiptir máli líka fyrir stór fyrirtæki í landinu, allt frá Landsvirkjun til bankanna og annarra stærri fyrirtækja. Þetta er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir efnahagskerfið allt að ná þessum árangri.

Það sjáum við á þeim langtímaspám sem nú þegar liggja fyrir og við munum fara að nýju að skoða núna á vormánuðum og ræða hér í ríkisfjármálaáætlun vorsins, að við erum á næstu árum með tækifæri til þess að lækka skuldir ríkisins langt, langt umfram það sem aðrir geta haft væntingar um. Langt umfram það.

Það kemur til af þeim tækifærum sem ég hef hér verið að nefna. Það kemur til af kraftinum í landsframleiðslu og það kemur til af því að við höfum þegar tekið ákvarðanir sem hafa hrint þessu ferli í raun og veru af stað. Sem sagt, skuldalínan er fallandi hlutfall inn í næstu ár og við getum jafnvel gert enn betur. Jafnvel þannig að innan tiltölulega fárra ára gætum við verið komin aftur með svipuð skuldahlutföll og við höfðum fyrir hrunið, sem við öll vitum að var algjör forsenda þess að við gátum tekið þannig á því verkefni að eftir hefur verið tekið víða um lönd. Það var algjör forsenda þess að við nytum lánstrausts hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nágrannaþjóðunum að við höfðum fyrir ekki miklar skuldir.

Þetta eru þessar mjög breiðu línur. Við eigum að sjálfsögðu eftir að ræða allt þetta. En mér finnst þetta mikið fagnaðarefni, það eru gríðarleg tíðindi að við séum komin á þennan stað í tiltektinni. Hér er komin niðurstaðan af stöðugleikaskattsfrumvarpinu. Skattstofninn verður ekki til staðar á næsta ári og það koma stöðugleikaframlög upp á sögulegar fjárhæðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna.

Ég þakka fyrir góða samstöðu um hvernig eigi að ráðstafa því en okkar bíður að halda vinnunni áfram. Næsta stóra verkefnið í mínum huga er að greiða niður skuldir ríkisins.