145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa ágætu ræðu hér í lok umræðunnar.

Fyrst vil ég þó láta þess getið, af því sem hann nefnir um fyrirkomulag fjárlagaumræðunnar, að stærsti vandinn í henni þetta árið sem og í fyrra er að fyrir fram ákveðin tímasetning, um tímasetningu 2. umr. fjárlaga, stenst ekki af hálfu meiri hlutans. Það er stærsta vandamálið í meðferðinni þrátt fyrir að við höfum lengt ferlið meira en dæmi eru um í þingsögunni; setjum þing fyrr og búum til lengri tíma. Þannig að það er eitthvað að í vinnsluferlinu. Við þurfum bara að ræða með hvaða hætti er hægt að taka á því.

Í annan stað tek ég undir með hæstv. fjármálaráðherra um mikilvægi þess að nýta vel það mikla tækifæri sem við búum við í kjölfar þess að það er að takast að nýta samningsstöðuna gagnvart hinum erlendu kröfuhöfum til þess að létta verulega á skuldabyrði ríkisins.

Ég er sammála því meginmarkmiði sem hæstv. ráðherra lýsir að það þurfi að létta á skuldum ríkisins. Ég er sammála því að forsenda þess að við getum tekist á við efnahagsáföll, eins og við gátum tekist á við hrunið, var að við bjuggum við lága skuldastöðu. Lítið ríki sem er berskjaldað fyrir sveiflum og með veikburða gjaldmiðil verður að jafnaði að vera lítið skuldsett.

Það er þess vegna mjög mikilvægt að verjast þeim freistnivanda sem verður nú fyrir hendi þegar staða ríkisfjármála batnar jafn gríðarlega og hæstv. ráðherra rakti svo ágætlega í sinni ræðu. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar að við missum ekki tökin í aðdraganda kosninga að því leyti.