145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já. Við munum halda áfram að ræða saman, auka samtalið, eins og hér er kallað eftir. Fjölga fundunum og tala fyrr saman. En vonandi berum við gæfu til þess að koma þessu í betri farveg strax á næsta þingi.

Ég ætla aðeins að ræða um vinnumarkaðinn aftur og vekja athygli á því að hér í dag erum við sömuleiðis ásamt fjárlagafrumvarpinu að afgreiða lög um opinber fjármál sem eru lykillög í þessu stóra samhengi. Það er meiri langtímasýn og sterkari agi í ríkisfjármálum og opinberum fjármálum sem er þar grunnhugsunin til að þetta verði mikið framfaraskref. Eflaust eigum við eftir að sníða ýmsa vankanta af því máli þegar við förum að láta reyna á framkvæmdina.

Síðan er það vinnumarkaðurinn og þar eru stórir hlutir að gerast. Við erum með lifandi samtal um grundvallarbreytingar í lífeyrismálum til þess að jafna lífeyrisréttindi á almenna markaðnum og opinbera markaðnum og við erum líka með vilja allra aðila til að láta reyna á vinnumarkaðsmódelið, rammann utan um kjarasamningagerðina.

Ef það mundi allt gerast á þriggja til fimm ára tímabili að við losum höftin, setjum ný lög um opinber fjármál, lokum fjárlagagatinu og greiðum niður í stórum stíl ríkisskuldir þannig að við stefnum að mjög lágum skuldahlutföllum og endurgerum vinnumarkaðsmódelið þá höfum við svo sannarlega unnið vinnuna okkar og skilað einhverju til komandi kynslóða sem að mun muna um.