145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

447. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið sem flutt er af allsherjar- og menntamálanefnd, en frumvarp þetta fjallar um reikningsár og frestun gildistöku. Texti frumvarpsins sjálfs er frekar einfaldur og stuttur en þannig er mál með vexti að ráðuneyti mennta- og menningarmála kom á fund allsherjarnefndar og óskaði eftir að nefndin flytti þetta frumvarp. Það er samið í ráðuneytinu í samráði við Ríkisútvarpið. Hluthafafundur Ríkisútvarpsins sem var haldinn á síðasta ári samþykkti að breyta viðmiðum varðandi reikningsár þannig að miðað væri við almanaksár í stað tímabilsins 1. september til 31. ágúst ár hvert og breytir þetta frumvarp því í lögum um Ríkisútvarpið.

Þá er hér að finna frestun gildistöku á ákvæðum er varða skyldur Ríkisútvarpsins til að reka aðra starfsemi en almannaþjónustu og sölu í viðskiptaboðum í dótturfélagi. Þetta átti að taka gildi 1. janúar 2014 en því var frestað í sparnaðarskyni til 1. janúar 2016 og nú er lögð til frestun að nýju.

Eftirlitsstofnun EFTA tók ákvörðun í september 2013 þar sem tilgreint er að með útfærslunni í 4. gr. laganna sé verið að færa fjárhags- og lagaumhverfi RÚV að ríkisstyrkjareglum EES-samningsins með því að aðskilja samkeppnisrekstur frá almannaþjónustu með dótturfélögum. Til þess að RÚV gefist kostur á að undirbúa þessa nauðsynlegu breytingu er hér lagt til að gildistökunni verði frestað til 1. janúar 2018.

Ég vonast til að þetta frumvarp fái framgang í þinginu en það er að sjálfsögðu allsherjar- og menntamálanefnd sem fer með þetta mál hér.