145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Umræðan um fjárlögin hefur vakið athygli í ár af því að hún hefur verið löng en hún hefur líka verið efnismikil. Og það er ástæða fyrir því, hér er tekist á um það hvernig við dreifum byrðunum og hvernig við dreifum gæðunum. Hér hefur birst grundvallarágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þar hefur stjórnarandstaðan verið með skýrar tillögur um það hvernig við getum bætt kjör viðkvæmustu hópanna í samfélaginu, öryrkja og aldraðra, og hvernig við getum tryggt boðlegt umhverfi fyrir mikilvægar samfélagsstofnanir á borð við Ríkisútvarpið og Landspítalann. Það hefur verið mjög dapurlegt að sjá stjórnarmeirihlutann hafna þessum tillögum og í tilfelli aldraðra og öryrkja ekki koma með neinar úrbætur. Það er dapurlegt.

En hér sést grundvallarágreiningur í stjórnmálum, (Forseti hringir.) munurinn á hægri stefnunni og félagshyggjunni.