145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á þessu ári hafa eiginlega meira og minna allir hópar fengið kjarabætur eftir harðar kjaradeilur. Tveir hópar eru skildir eftir og það eru eldri borgarar og öryrkjar. Það er ekki glæsilegur árangur, svo ég noti orð þess þingmanns sem stóð hér á undan mér í stólnum. Það er þessu þingi og þessum stjórnarmeirihluta til mikils vansa. Við í stjórnarandstöðunni tókum harðan slag fyrir bættum kjörum eldri borgara og vonuðumst til þess að á okkur yrði hlustað. Svo var ekki. Við tókum harðan slag fyrir auknum fjármunum til Landspítalans. Þar var á okkur hlustað að þriðjungi, þ.e. það er verið að koma með rúmlega þriðjung af því sem talið er að þurfi inn í spítalann til að hann geti haldið starfsemi sinni áfram eins og vera ber.

Í þriðja lagi tókum við hér harðan slag fyrir Ríkisútvarpið. Það er að skila sér (Forseti hringir.) að litlu leyti líka. Það er svo sem fagnaðarefni, en til þess var slagurinn tekinn. Að ekki hafi verið hlustað á okkur hvað varðar eldri borgara og öryrkja er dapurlegt og ég verð að segja eins og er að ég vona að þingmenn hér inni hlusti á samvisku sína þegar þeir greiða atkvæði um þá breytingartillögu hér á eftir.