145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er augljóst að við erum hér að greiða atkvæði um söguleg fjárlög. Eins og fram hefur komið fara heildartekjur ríkisins yfir 1 þús. milljarða í fyrsta sinn sem kemur til af árangursríkri hugmyndafræði við afnám haftanna. Við erum hér að leggja grunninn með þessum fjárlögum að því að lyfta höftum af Íslendingum sem hafa hvílt eins og skuggi yfir öllu efnahagslífinu.

En þetta eru líka fjárlögin þar sem við höldum áfram að létta sköttum af landsmönnum. Vilji menn mæla það á einhverju hvernig landsmenn komast nú frá því fjárlagafrumvarpi sem hér eru greidd atkvæði um ættu menn að horfa á það hvort ráðstöfunartekjur landsmanna eru að vaxa eða ekki. Það er það sem er ánægjulegt, ráðstöfunartekjurnar halda áfram að vaxa. Allir landsmenn munu auka kaupmátt sinn á næsta ári. Þeir sem (Forseti hringir.) hafa verið háværastir í umræðu um almannatryggingar ættu að halda því til haga, til að gæta lágmarkssanngirni, að kaupmáttur bóta vex stórum skrefum. [Kliður í þingsal.]