145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er lokið í raun og veru árvissri aðför núverandi ríkisstjórnarflokka að Ríkisútvarpinu. Hringlandaháttur sá sem Ríkisútvarpið hefur þurft að búa við er óþolandi. Hér er um að ræða enn eina tilraun til að ráðast gegn sjálfstæði miðilsins og í raun tilraun til að vega að almannaútvarpinu á Íslandi.

Sem betur fer kom skýrt fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að skilyrðingu þessa framlags í greinargerð með breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar beri ekki að taka of hátíðlega, heldur yrði tekið á áherslum og forgangsröðun í þjónustusamningi sem ráðherrann lofar að ræða við Alþingi enda á stefna um áætlun í dagskrárgerð heima í slíkum samningi samkvæmt lögum en ekki í greinargerð með breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið.

Hér er um að ræða hallærisleg vinnubrögð. Ríkisútvarpið er enn þá í óvissu og pólitískt bitbein. Slíkt ástand er í boði (Forseti hringir.) núverandi stjórnarmeirihluta og því ástandi verður að linna.

Við sitjum hjá.