145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að þrátt fyrir að þessi niðurstaða sé að nást stendur Ríkisútvarpið frammi fyrir verulegum áskorunum þegar kemur að rekstrinum á næsta ári. Ég sagði í umræðu fyrr í dag að ég teldi heppilegt og gagnlegt að ég kæmi til þings með drögin að þjónustusamningi. Við gætum rætt þau hér, með leyfi forseta, ef verkast vill í upphafi þings á nýju ári, t.d. haft umræðu um skýrslu þannig að við gætum kallað fram skoðanir þingmanna og fengið umræðu um þennan þjónustusamning. Áfram er það á ábyrgð menntamálaráðherra að ganga frá slíkum samningi en ég tel það mjög til bóta og gæti verið einmitt skref í þá átt að skapa betri samstöðu á þingi um fjölmiðlamálin. Ég bendi meðal annars til þess sem frændur okkar á Norðurlöndum gera hvað varðar samkomulag um fjölmiðlamarkaðinn sem ég held að við gætum líka litið til hér til framtíðar.