145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég samþykki þetta að sjálfsögðu.

Í gær hélt áfram ákveðinn misskilningur í umræðum um fjárlögin, ég held að það hafi verið frekar þannig en í fyrradag um Þróunarsamvinnustofnun, vegna þess að í nefndaráliti fjárlaganefndar fyrir 2. umr. kemur fram að ekki séu rétt reiknuð þau framlög sem eru til þróunaraðstoðar. Jafnframt kemur fram að það sé ámælisvert að slíkt sé gert. Það er ekki hægt að láta þennan texta standa þannig í ljósi þess að sú umræða hélt hér áfram vegna þess að það er rangt sem þar kemur fram. Þegar tillögur okkar komu fram var allt rétt reiknað. Hins vegar kom síðar fram að ríkisstjórnin ákvað að bæta töluvert í til flóttamanna og við það hækka framlögin síðar. Svo er rétt að benda á að þau framlög sem renna til Uppbyggingarsjóðs EFTA geta ekki talist til þróunarsamvinnu.