145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ótrúlega leið yfir því að þetta skuli fara svona rétt fyrir jólin. Þetta eru hópar sem lifa af um 200 þús. kr. á mánuði og kveðjurnar hér eru að þeir skuli ekki njóta sömu kjarabóta og aðrir á vinnumarkaði.

Við höfum þó náð þeim árangri í umræðunni að hæstv. forsætisráðherra viðurkenndi áðan að það mun aftur bera í milli í maí. Það er þó kominn sá skilningur inn hjá ríkisstjórninni sem þýðir þá að menn taka þessa ákvörðun með galopin augun, að það skuli skilja á milli lægstu launa og lægsta lífeyris.

Hættum að horfa á prósenturnar, horfum á krónutöluna og spyrjum okkur þeirrar samviskuspurningar hvort við mundum treysta okkur til að halda jólin með 200 þús. kr. mánaðartekjur.

Ég segi já við þessari tillögu því að ég vil breyta þessu og bæta kjör eldri borgara og öryrkja.