145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að endurtaka atkvæðaskýringu mína síðan áðan svo hv. þm. Árni Páll Árnason gæti heyrt hana beint í æð. Við vorum að setja fjármagn til heilbrigðiskerfisins til að draga úr fráflæðisvanda Landspítalans. Það er gríðarlega jákvætt. Af hverju gerðist þetta? Það er eitt sem hv. þm. Árni Páll Árnason gleymdi þegar hann kom upp áðan og taldi af hverju þetta væri að gerast. Það sem gerðist milli umræðna var að nokkur hundruð milljarðar komu inn af eignum og fjármagni vegna þess að skynsemin sigraði þá óskynsemi sem hv. þingmaður talaði fyrir.

Virðulegur forseti. Það kom inn fjármagn og eignir frá kröfuhöfum erlendra fjármálafyrirtækja sem átti að taka að láni. Hv. þingmaður lagði það meðal annars til. Eftir því sem þessar eignir verða seldar og fjármagn kemur inn eigum við að nota það í auknum mæli (Forseti hringir.) og fyrst og síðast til að efla heilbrigðisþjónustuna í landinu og aðrar grunnstoðir og þar verði heilbrigðisþjónustan sett í fyrsta sæti. Hér er stigið fyrsta skrefið í því efni og það er gríðarlega jákvætt. [Kliður í þingsal.] (SII: Er þetta eðlilegt, herra forseti, að …?)