145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að útskýra breytingartillögu okkar við 3. umr. í 373. máli. Verði þessi breytingartillaga samþykkt mun virðisaukaskattur af lyfjum sem ríkið fær að gjöf og heilbrigðisstofnanir í ríkiseigu falla niður séu þau skilyrði sem fram koma í tillögunni uppfyllt. Undanþágan gildir í þrjú ár.

Virðulegu þingmenn. Ég vildi gjarnan uppfræða um tilefni tillögunnar, en það er átak sem ríkisstjórnin, heilbrigðisyfirvöld og lyfjafyrirtækið Gilead standa að til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi. Gilead leggur til lyfið Harvoni án endurgjalds, en með átakinu gefst fyrirtækinu einstakt tækifæri til að rannsaka ávinning slíks þjóðarátaks. Lyfið Harvoni hefur meðal annars verið notað á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Lyfið er mjög skilvirkt en mjög dýrt. Samkvæmt upplýsingum sem þingmaður hefur aflað sér kostar lækningin um 11 milljónir á hvern sjúkling. Hér á landi er áætlað að um 1 þús. manns séu smituð af lifrarbólgu C. Ég vil færa lyflæknateymi Landspítalans þakkir fyrir forustu og frumkvæði í að fá þetta verkefni til landsins og ég óska okkur öllum til hamingju með þá stórbættu lýðheilsu sem mun hljótast af.

Tillagan er liður í því að greiða fyrir framgangi þessa mikilvæga verkefnis. Ég vonast til að þingmenn ljái henni atkvæði sitt.