145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

málefni aldraðra o.fl.

398. mál
[18:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna þessa frumvarps sem er tillaga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, lögum um almannatryggingar og lögum um sjúkratryggingar. Það er eiginlega bara tvennt sem mig langar að undirstrika við þessa umræðu, reyndar atriði sem eru vel og ítarlega rakin í nefndaráliti minni hluta hv. velferðarnefndar. Annars vegar er gagnrýni á vinnubrögðin um þetta mál en frumvarpið kom mjög seint fram. Afgreiðsla þess tengist afgreiðslu fjárlaga og tilefnið hefði átt að vera ljóst frá því í sumar en engu að síður var málinu ekki dreift fyrr en 2. desember og mælt fyrir því að kvöldi 17. desember og hv. velferðarnefnd fékk einungis eina klukkustund til að kanna málið. Það þýðir að það var ekki sent út til umsagnar.

Þá komum við að seinna atriðinu í því sem ég vil gera hér að umtalsefni. Þegar að er gáð er þetta mál meira en svo að það tengist bara einhverjum dagsetningarákvæðum, það tengist líka ákveðnum kerfisbreytingum. Þetta snýst um það að í ríkara mæli er verið að færa rekstur á velferðarþjónustunni inn á samningssvið þjónustu sem jafnvel opinberir eða hálfopinberir aðilar veita þegar. Það er sem sagt verið að útvista málum frá ríkinu. Þetta tengist einnig inn á málefni sveitarfélaganna þar sem þetta tengist rekstri á hjúkrunar- og dvalarheimilum sem byggjast á daggjöldum. Það hefur verið mjög þungur rekstur undanfarin ár, m.a. fyrir sveitarfélögin. Þess vegna er gagnrýnivert að sveitarfélög hafi ekki getað veitt umsögn um þetta mál. Það sama má segja um Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu sem hafa bent á að með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til sé þeim gert að annast um og bera ábyrgð á innheimtu greiðslu frá heimilismönnum og að það fyrirkomulag geti verið erfitt þar sem þarna er um að ræða mikið návígi annars vegar stjórnenda og hins vegar heimilismanna og að ekki hafi gefist neinn tími til að skoða þessar athugasemdir.

Það sem mig langaði að vekja athygli á við þessa umræðu er sem sagt annars vegar hinn allt of stutti tími sem þetta mál fékk og hins vegar að það snýst líka um grundvallarnálgun hvað velferðarþjónustu varðar.