145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get að verulegu leyti vísað til þess sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur rakið. Það er mjög mikilvægt að standa að baki breytingunni um fjármögnun þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Eins og ég sagði áðan í atkvæðaskýringu við afgreiðslu á fjárlögum er það hróss vert að ríkisstjórnin skuli hafa gengið til samninga við sveitarfélögin þar um. Mikilvægt er að minna á að við yfirfærsluna 2010 var útfært mjög vandlega allt er laut að fjármögnun verkefnanna, en það var alltaf vitað að síðan þyrfti að gera lokaúttekt í kjölfar reynslunnar til að fínstilla tekjustofnana. Það hefur verið gert með þessu samkomulagi. Ég tel að það hafi verið farsællega gert, að það hafi verið góð ákvörðun að flytja málefni fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga. Það var vandað mjög til fjármögnunar þess verkefnis og með þeirri ákvörðun á þeim tíma var málaflokknum líka forðað undan niðurskurði sem ella hefði bitnað á honum í höndum ríkisins.

Varðandi samsköttunarþáttinn get ég tekið undir það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir segir. Mér finnst í sjálfu sér erfitt að taka jákvæða afstöðu til samsköttunarákvæðisins sem slíks en stóð að afgreiðslu málsins vegna þess að þetta var skárri lausn en sú sem var á borðinu að öðrum kosti af hálfu meiri hlutans í fyrri útgáfu. Ég veitti því tilstyrk til afgreiðslu málsins með þeim hætti en hef á því fyrirvara og tel mikilvægt að næsta ár verði notað til þeirrar greiningar sem þarf að fara fram, til að meta áhrif svona samsköttunarumgerðar á kynjaða hagstjórn. Við meðferð þessa máls í nefndinni í gær fannst mér satt að segja í fyrsta skipti maður sjá alvöruumfjöllun í þingnefnd um skattamál á forsendum kynjaðrar hagstjórnar. Ég vil hrósa þessari ríkisstjórn fyrir að hafa haldið við lýði þeirri stefnumörkun sem varð til í tíð síðustu ríkisstjórnar um kynjaða hagstjórn og að það skuli vera eining í fjármálaráðuneytinu sem ráði virkilega við efnislega umræðu um þau mál, komi og eigi rökræður við þingmenn um ákvarðanir á þessum grunni. Það er mikið fagnaðarefni.

Ég legg síðan bara til að tíminn verði nýttur betur til að vinna þetta mál enn frekar áfram.