145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

niðurstaða vinnu stjórnarskrárnefndar.

[13:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef ég byrja á síðustu athugasemd hv. þingmanns þá er ég alveg sammála því að æskilegt sé að þjóðin hafi sem mest tækifæri til að kalla eftir því að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Svo við víkjum að starfi nefndarinnar held ég að ekki sé hægt að stilla því þannig upp, eins og mér heyrist hv. þingmaður gera, að þar séu tvö lið stjórnar og stjórnarandstöðu og stjórnarandstaðan eigi bara að bíða eftir hvað fulltrúar stjórnarmeirihlutans bjóði. Þetta hlýtur að vera samvinna um að finna niðurstöðu sem er aðgengileg fyrir alla, niðurstöðu sem felur í sér góðar breytingar sem við höfum tækifæri til þess að gera núna, ekki hvað síst vegna þess að hv. þm. Árni Páll Árnason beitti sér fyrir því við lok síðasta kjörtímabils að halda þessum möguleika opnum. Þess vegna hefur mér þótt illa að hv. þingmanni vegið þegar gefið hefur verið í skyn að hann hafi á einhvern hátt komið í veg fyrir stjórnarskrárbreytingar. Sá möguleiki sem er fyrir hendi núna er ekki hvað síst til kominn vegna þess að hv. þm. Árni Páll Árnason beitti sér fyrir því.

Ég vona að okkur takist að nýta þennan möguleika, en við verðum þá að vera með það á hreinu hvernig stjórnmálaflokkarnir ætla að fylgja málinu eftir á þinginu. Það er ekki hægt að hafa afurð þessa starfs munaðarlausa, ef svo má segja. Við þurfum að hafa áfram sameiginlegan skilning á því að það sem verður niðurstaða nefndarinnar, það sem sátt verður um þar, fari í einhvern farveg þar sem flokkarnir vinni áfram saman.