145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

nýjungar í opinberu skólakerfi.

[13:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Snýst þetta um fagmennsku? Svar mitt er þetta: Þetta snýst um árangur. Staðan þegar kemur að lestri íslenskra skólabarna er sú að frá árinu 2012, þegar krakkarnir okkar fóru fyrst í PISA-próf, hefur árangri okkar hrakað jafnt og þétt með einni undantekningu frá þeim tíma. Nú er svo komið þegar maður skoðar tölurnar að það er eins og krakkarnir sem tóku prófið 2012 hafi verið hálfu ári skemur í skóla en krakkarnir sem tóku prófið árið 2000, en öll vitum við auðvitað að sú er ekki raunin. Niðurstaðan er því þessi: 30% drengja við útskrift úr grunnskóla geta ekki lesið sér til gagns.

Það er árangurinn, virðulegi forseti, sem hlýtur að vera hér til grundvallar. Ég hef áhuga á að heyra það frá hv. þingmanni, fyrrverandi hæstv. ráðherra málaflokksins, hvort hún sé þeirrar skoðunar að við getum sagt við foreldra, t.d. þeirra drengja sem ekki geta lesið sér til gagns við lok grunnskóla, að við séum sátt við þá niðurstöðu og okkur finnist okkur hafa tekist mjög vel upp hvað varðar nám þessara barna eða 12% þeirra stúlkna sem geta ekki við lok grunnskóla lesið sér til gagns.

Má ég minna á að við erum sú þjóð sem setur einna mest af fjármunum til náms og til að styrkja hvern og einn einasta nemanda á grunnskólastiginu. Það er það sem ég er að vísa til að við þurfum að gera miklu betur.

Auðvitað eru nýjungar í opinbera skólakerfinu. Reyndar af því að hv. þingmaður var að telja hér upp opinber afskipti af tækninýjungum þá er það alveg rétt að hið opinbera hefur þar hlutverk, t.d. við grunnrannsóknir ýmiss konar. Margt merkilegt hefur einmitt komið á grundvelli þeirra. En við vitum líka og þekkjum það og ég get farið í langa umræðu um það við hv. þingmann að þegar kemur að framtaki einstaklinganna og þeirra hvata sem þar eru þá er mjög líklegt að síðan komi lausnir sem hægt er að nota á grundvelli slíkra rannsókna.

Enn og aftur, hér er verið að ræða um árangur. Ég ætla í það minnsta að segja að ég er ósáttur við þá niðurstöðu að 30% drengjanna okkar geti samkvæmt niðurstöðum PISA-rannsóknanna ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Ég er ekki að segja að það séu hin heilögu sannindi en það gefur sterka vísbendingu. Ég er ósáttur við að 12% stúlknanna geti það ekki. Ég er ósáttur við þessa stöðu. Það er sá mælikvarði sem stýrir því hvort ég verð ánægður með þá niðurstöðu, (Forseti hringir.) m.a. af nýsköpun þegar kemur að (Forseti hringir.) lestrarkennslu barna og ungmenna.