145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

nýjungar í opinberu skólakerfi.

[14:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég skil svör hæstv. ráðherra þannig að hann sé mjög ósáttur við hið opinbera skólakerfi eins og hann talar hér. Hann talar um lélegan árangur í lestri. Það er alveg rétt að við hefðum viljað sjá betri árangur í lestri. Við höfum náð mjög góðum árangri á ýmsum öðrum sviðum sem hæstv. ráðherra kýs að nefna ekki.

En ég spurði ráðherra skýrt og klárlega spurningar, hvað hann teldi að réði mestu um árangur í nýjungum, hvort það væri rekstrarformið eða hvort það væri fagmennska. Þegar hæstv. ráðherra svarar því til að hið opinbera hafi þar fyrst og fremst eitthvað til málanna að leggja, t.d. í grunnrannsóknum, þá er það ekki svo því að þegar kemur að þeirri tækniþróun sem ég nefndi þá snýst hún ekki bara um grunnrannsóknir af hálfu hins opinbera, heldur betur ekki, heldur þróun og nýsköpun á endanlegri framleiðslu.

Ég áttaði mig ekki á því hvort hæstv. ráðherra var að tala fyrir því, af því að hann tiltók sérstaklega hið opinbera en ekki bara skólana almennt eða starfsfólk þeirra, að það næðist betri árangur ef skólakerfið væri einkarekið að stærri hluta. Er það það sem hæstv. ráðherra er að vísa í þegar hann kvartar undan því að ekki séu nægilegar nýjungar í hinu opinbera skólakerfi? Hvað á hæstv. ráðherra nákvæmlega við þegar hann talar um að hið opinbera skólakerfi standi sig ekki? Telur hann að sú miðstýrða skólastefna (Forseti hringir.) sem hann talar hér fyrir, þ.e. árangursmælingar (Forseti hringir.) á tilteknum mjög afmörkuðum sviðum, sé líkleg til að leiða til frekari nýjunga á breiðu sviði í skólastarfi?