145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

nýjungar í opinberu skólakerfi.

[14:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi að það væru dæmi um að hið opinbera hefði fundið upp tækni og þróun nýjunga sem almenningur nýtti. Það er alveg hárrétt. Reyndar fann hið opinbera líka upp kjarnorkusprengjuna svo að líka séu nefnd dæmi um vonda hluti sem hið opinbera hefur fundið upp.

Málið snýst enn og aftur bara um eitt. Erum við að ná þeim árangri sem við þurfum að ná þegar kemur að menntun barnanna okkar? Um það snýst þetta og umræðan hlýtur að taka mið af því.

Það er mikill misskilningur að það sé verið með einhverjum hætti að vega að fagmennsku einstaklinga með slíkum orðum þegar ég kalla eftir því að við náum betri árangri. Þess vegna réðumst við í sérstakt átak hvað varðar læsi og héldum fjölda funda um allt land til þess að ræða þetta mál við nemendur, foreldra og skólafólk. Þetta er óásættanleg staða fyrir Ísland.

Ég hefði viljað heyra hv. þingmann, fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, ræða þau mál af meiri alvöru og taka undir með mér að við verðum að breyta þessu. Við látum það ekki spyrjast um íslenska þjóð að við sitjum aðgerðalaus við þá stöðu (Gripið fram í.) óbreytta, hvort við ætlum að … (Gripið fram í.) — Ja, af því að hér er spurt, svarið liggur í þessu: Niðurstaðan er sú að börnunum okkar hefur hrakað verulega í læsi á síðustu árum.

Þá kemur spurningin: Erum við að gera nóg þegar kemur að nýsköpun og uppgötvun á nýjum kennsluaðferðum til að snúa því við? Niðurstaðan (Forseti hringir.) liggur fyrir. Þess vegna þurfum við að breyta (Forseti hringir.) og nýta sem best alla krafta og allar hugmyndir og alla möguleika bæði innan kerfis og (Forseti hringir.) utan til að láta þessa stöðu ekki standa.

Virðulegi forseti. Hún er óásættanleg.