145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

atvinnuþróun meðal háskólamenntaðra.

[14:09]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hæstv. forsætisráðherra að sá sem hér stendur hneigist frekar til bjartsýni, en þess vegna finnst mér mikilvægt að við tökum umræðuna og höndlum málin þegar við sjáum merki um að það sé, ég segi ekki að syrta í álinn heldur að við séum að sigla í ranga átt. Það sem ég var að hugsa um eru ákveðnar aðgerðir til þess að aðstoða ungt fólk við að komast inn í atvinnulíf, íslenskt samfélag og trúa á framtíð á Íslandi. Ákveðin merki vekja mér áhyggjur eins og að Lánasjóður íslenskra námsmanna sé að lækka framlög til námsmanna erlendis, það hversu erfiðlega hefur gengið hjá okkur að opna fyrir atvinnuleyfi sérfræðinga til landsins, sem er reyndar verið að taka á í frumvarpi um ný útlendingalög, húsnæðismálin o.s.frv. Ég er ekki að segja að allt sé í kaldakolum (Forseti hringir.) heldur þvert á móti vil ég reyna að taka umræðuna áður en við erum komin í herfileg mál eins og hæstv. forsætisráðherra benti á að sum önnur lönd væru komin í.