145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

atvinnuþróun meðal háskólamenntaðra.

[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Forvarnir eins og þær sem hv. þingmaður lýsir eru mjög af hinu góða og alltaf ástæða til að vera vel á verði og velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að gera enn betur. Við munum halda áfram að vinna að því að gera enn betur, gera atvinnulífið enn fjölbreytilegra, búa til enn fleiri atvinnutækifæri og auka kaupmátt Íslendinga enn meira eins og þróunin hefur verið að undanförnu.

Ég held að ungt fólk sé alveg fullfært um það sjálft að meta kosti þess að búa hér á landi, það þurfi ekki sérstaklega að fara í átak til þess að gera því það ljóst enda er samanburðurinn eins og ég lýsti áðan býsna sláandi þegar við skoðum það hvað menn eru í raun heppnir að alast upp á Íslandi og hafa úr þeim tækifærum að spila sem hér bíða ungs fólks og annarra í samanburði við það sem menn standa frammi fyrir allt of víða, meðal annars í mjög mörgum og reyndar, því miður, virðulegi forseti, flestum Evrópulöndum.

Hvað varðar húsnæðismál þá er það alveg rétt að það er ákaflega mikilvægt mál sem menn eru að fást við mjög víða. Í Bretlandi er mikið talað um að það sé orðið ómögulegt fyrir ungt fólk að komast inn á fasteignamarkaðinn. Það eru vissulega hindranir í þeim efnum hér á landi en þar eins og á öðrum (Forseti hringir.) þeim sviðum sem hv. þingmaður nefndi eru stjórnvöld að vinna að lausnum og koma með þær á færibandi held ég að megi segja, virðulegi forseti.