145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

afnám verðtryggingar og þjóðaratkvæðagreiðslur.

[14:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það var áhugavert að heyra aukið álit, alla vega í fyrri hluta fyrirspurnarinnar, hv. þingmanns á fulltrúalýðræðinu þegar hv. þingmaður botnaði ekkert í því að menn skyldu ekki bara afgreiða málið á þingi með þingmálum frekar en vera að tala um einhverjar þjóðaratkvæðagreiðslur. En svo reyndar fannst mér verða algjör viðsnúningur í seinni (Gripið fram í.) hluta fyrirspurnarinnar þar sem var farið að spyrja (Gripið fram í.) út í það hvers vegna ekki væri farin sú leið að almenningur gæti lagt fram mál á þinginu og stangaðist fyrirspurnin þannig nokkuð á.

Virðulegur forseti. Til þess að svara fyrirspurn hv. þingmanns þá er þetta tiltekna mál sem spurt var um í þeim farvegi sem hv. þingmaður þekkir, hefur verið afgreitt í ríkisstjórn og unnið samkvæmt því. Ég hef hins vegar ekkert á móti því, og tel raunar mjög æskilegt og hélt að hv. þingmaður væri sammála mér um það, að menn auki möguleikana á beinu lýðræði, auki möguleikana á því að haldnar verði þjóðaratkvæðagreiðslur. En af hverju er ekki verið að ræða þá tilteknu grein sem hv. þingmaður las upp í vinnu stjórnarskrárnefndarinnar? Af hverju spyr hv. þingmaður mig að þessu? Af hverju ræðir hún þetta ekki við fulltrúa Pírata í nefndinni? (Gripið fram í.) Ég legg þessari nefnd ekki fyrir hvaða greinar hún eigi að ræða eða með hvaða hætti. Menn höfðu, að því er ég taldi, náð saman um að forgangsraða þannig að nokkur tiltekin mál yrðu afgreidd fyrst og mér fannst vera ágætissamstaða um það. Nú finnst mér hins vegar aftur og aftur í fyrirspurnum og athugasemdum hv. þingmanna Pírata eins og þeir séu á einhvern hátt að reyna að bakka út úr þessari vinnu, vilji ekki fylgja henni eftir, séu að reyna að finna ástæður fyrir því að þetta eigi jafnvel ekki að klárast eða sé ómögulegt.

Ég hef verið spurður af hv. þingmanni hvort þetta verði ekki örugglega ríkisstjórnarmál, mál sem var sérstaklega lagt upp með sem samstarfsmál allra flokka, þannig að ég velti fyrir mér, virðulegur forseti: Er ekki lengur stuðningur meðal pírata við vinnu stjórnarskrárnefndarinnar?