145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

sala á hlut ríkisins í Landsbankanum.

[14:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það eru dapurleg tíðindi í stjórnarskrármálinu ef forsætisráðherra er helst upptekinn við að finna sökudólg í því hver hafi spillt málinu. En ég kveð mér hljóðs til að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna liggur svona óskaplega á að selja hlut ríkisins í Landsbankanum? Það er óútskýrt. Aftur á móti virðist margt benda til að ríkið gæti hagnast verulega á því að halda á hlutnum, bæði í formi vaxta og hækkandi verðs. Fórnarvextir þeir sem ríkið þarf að greiða fyrir að halda á hlutnum eru smávægilegir í samanburði við þann mikla ávinning. Það er vandséð hvernig hagsmunir skattgreiðenda og ríkisins geti verið tryggðir með því að fara í þessa sölu. Svona talar Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins, hér fyrr í mánuðinum. Ég beini þessum spurningum Frosta einfaldlega til forsætisráðherra. Hvers vegna í ósköpunum liggur svona mikið á, spyr Frosti, að selja eignarhlutinn í Landsbankanum strax? Það er óútskýrt, segir Frosti.

Framsóknarflokkurinn hefur deilt þessari yfirlýsingu þingmannsins á fésbók og raunar kostað upp á að birta hana. Það gefur kannski tilefni til að spyrja formann Framsóknarflokksins og forsætisráðherra hvort Framsóknarflokkurinn sé farinn að beita sér sérstaklega gegn sínum eigin fjárlögum eða hvort flokkurinn sé hættur við að selja hlutinn á yfirstandandi ári eða hvernig á þessu fyrirkomulagi standi. En fyrst og fremst, ég held að ég fari rétt með að hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem er vel að sér um fjármál og bankamál, hafi bent á að tekjur ríkissjóðs gætu verið um 5 milljarðar á ári af því að halda á hlutnum en kostnaðurinn aðeins 1 milljarður. Er það þá ekki augljóst, hæstv. forsætisráðherra, að mat formanns efnahags- og viðskiptanefndar sé býsna gott og það sé einfaldlega ekki góð hugmynd sem ákveðin var í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár að selja fyrir 35 milljarða hlut í Landsbankanum? Hefur forsætisráðherra hugsað sér að endurskoða þessa ákvörðun og hverfa frá fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar eða getur hann útskýrt fyrir mér, fyrir Frosta Sigurjónssyni og fyrir þjóðinni allri hvers vegna liggur svona á að selja þennan hlut strax þegar það virðist ekki vera sérstaklega hagstæður tími til þess?

(Forseti (EKG): Forseti beinir því til hv. þingmanna að ávarpa aðra hv. þingmenn með fullu nafni.)