145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

landlæknir og lýðheilsa.

397. mál
[14:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, með síðari breytingum.

Frumvarpið er samið í velferðarráðuneytinu að höfðu samráði við embætti landlæknis. Með frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á fyrirkomulagi við úthlutun úr lýðheilsusjóði þannig að í stað stjórnar lýðheilsusjóðs sé það í höndum heilbrigðisráðherra að taka ákvarðanir um úthlutun styrkja úr sjóðnum að fengnum tillögum stjórnar lýðheilsusjóðs.

Hlutverk lýðheilsusjóðs er að styrkja lýðheilsustarf sem samræmist markmiðum laga um landlækni og lýðheilsu bæði innan og utan embættis í þeim tilgangi að stuðla að heilsueflingu og forvörnum. Frá árinu 2012 hefur stjórn lýðheilsusjóðs tekið ákvarðanir um úthlutun styrkja úr sjóðnum í samræmi við ákvæði reglugerðar og starfsreglna sem sjóðurinn setur sér. Frá sama tíma hefur velferðarráðuneytið veitt styrki til lýðheilsu- og forvarnaverkefna af safnliðum fjárlaga en áður var þeim styrkjum úthlutað af fjárlaganefnd Alþingis. Markmið þeirra breytinga var meðal annars að tryggja gegnsæja meðferð umsókna um styrki úr ríkissjóði. Í tilkynningu frá Alþingi frá árinu 2011 þar sem þessum breytingum voru gerð skil kom fram að gert væri ráð fyrir að ráðuneytin úthluti einungis styrkjum til verkefna sem falla undir málefnasvið þeirra að svo miklu leyti sem þau féllu ekki undir lögbundna sjóði eða samninga.

Verði frumvarp þetta að lögum verða því styrkveitingar til lýðheilsu- og forvarnaverkefna í betra samræmi við áherslur Alþingis frá árinu 2011 um að tryggja gegnsæi við úthlutun styrkja úr ríkissjóði og gildandi reglur um úthlutun styrkja sem heilbrigðisráðherra veitir samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni, m.a. um að ekki skuli ráðstafa styrkjum til aðila sem hlotið hafa styrki úr lögbundnum sjóðum. Þannig verði komið í veg fyrir að umsækjendur sömu verkefna fái bæði úthlutað styrkjum af safnliðum fjárlaga og úr lýðheilsusjóði á sama tíma.

Hins vegar eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á skipan stjórnar lýðheilsusjóðs. Samkvæmt núgildandi lögum er stjórn sjóðsins skipuð sjö fulltrúum, fjórir tilnefndir af fagráðum landlæknis, tveir eru fulltrúar landlæknis og formaður er skipaður af ráðherra. Í frumvarpinu er lagt til að stjórnarmönnum verði fækkað um fjóra fulltrúa þannig að embætti landlæknis eigi einn fulltrúa í stað tveggja, fagráð landlæknis eigi ekki fulltrúa í stjórninni og áfram verði gert ráð fyrir því að formaður stjórnar verði skipaður af ráðherra. Þá er lagt til að einn fulltrúi í stjórn sjóðsins verði tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands þar sem mikilvægt er að í stjórn lýðheilsusjóðs sitji fulltrúi úr fræðasamfélaginu. Með nýrri skipan sjóðsins er leitast við að einfalda og auka skilvirkni í meðferð og afgreiðslu umsókna sem berast sjóðnum.

Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins en markmið þess er að stuðla að gagnsæi við ráðstöfun opinbers fjár við úthlutun styrkja til lýðheilsu- og forvarnamála.

Ég vil vekja athygli á því að í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á fjármögnun sjóðsins. Áfram mun renna til lýðheilsusjóðs hlutfall af innheimtu áfengisgjaldi í samræmi við ákvæði laga um gjald af áfengi og tóbaki, hlutfall af brúttósölu tóbaks í samræmi við ákvæði laga um tóbaksvarnir og framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvæðum fjárlaga hverju sinni. Þá mun styrkjum verða úthlutað eftir sem áður til lýðheilsu- og forvarnaverkefna á grundvelli fagþekkingar.

Ég leyfi mér því, virðulegur forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr. að lokinni umræðu.