145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

landlæknir og lýðheilsa.

397. mál
[14:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var á margan hátt mjög áhugaverð og í tengslum við þetta litla mál. Höfuðástæða þess að ég flyt þetta frumvarp er í rauninni sú að ég er að hvetja til þess að menn skoði í þinginu áhrif þess að færa fjármögnun á landlæknisembættinu í það form sem það er, þ.e. lýðheilsusjóðurinn er látinn fjármagna 65% starfsemi landlæknisembættisins og 35% renna í svokallaðan lýðheilsusjóð.

Athugasemdir hafa verið í umræðunni milli Ríkisendurskoðunar og embættisins sem hafa ekki birst enn í neinni úttekt eða áliti heldur hafa þær komið til umræðu. Ég tel fyllilega ástæðu til að þingið ræði þennan þátt í meðferð málsins. Sömuleiðis er hitt atriðið sem snýr að þeirri breytingu sem gerð var á meðferð safnliða árið 2011 af þinginu. Það er í mínum huga óhjákvæmilegt að sú breyting sé rædd af hálfu þingsins í tengslum við störf lýðheilsusjóðsins. Ég hef séð það sjálfur í vinnu ráðuneytisins, við úthlutun svokallaðra velferðarstyrkja sem eru safnliðirnir sem því var falið að vinna með af þinginu, að þar inni eru verkefni sem skarast við verkefni sem lýðheilsustjórnin, sem er algjörlega sjálfstæð, úthlutar síðan til. Við þetta ástand, án þess að ég sé að fullyrða nokkuð um það, skapast ákveðin skörun. Hætta er á því að verkefni sé styrkt á tveimur stöðum samtímis.

Hvernig svo sem lendingin í málinu verður þá geri ég mér í sjálfu sér enga rellu yfir því. Þetta er hvatning til þess að við skoðum þetta fyrirkomulag. Ég tel fulla þörf á því. Það kann vel að vera að í meðförum þingsins verði komist að þeirri niðurstöðu að betra sé að leggja stjórnina yfir lýðheilsusjóðnum af og sameina þetta undir einn hatt og búa til, eins og hv. þingmaður nefndi, einhvers konar ráðgefandi fagráð fyrir ráðuneytið til þess að úthluta þeim fjárhæðum sem þarna eru undir. Það kann vel að vera. Ég set mig ekki á nokkurn hátt upp á móti nokkurri hugmynd sem sett er fram í tengslum við þá umræðu sem þetta mál kann að vekja.

Ég tel nauðsynlegt að samræma með hvaða hætti það takmarkaða fé, sem til forvarna er veitt í fjárlögum í gegnum lýðheilsusjóðinn eða á safnliðum með velferðarstyrkjum, er veitt. Það er nauðsynlegt að ræða hvernig því er ráðstafað. Ég tel að þetta sé tækifæri til þess.

Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið sem hér koma fram um að full þörf sé á því að efla forvarnir á sviði áfengisvarna og ekki síður tóbaksvarna. Sem betur fer höfum við náð ágætisárangri á síðustu árum í þeim efnum, en ég tel brýnt að gera betur og að því er unnið mestan part á vegum landlæknisembættisins. Öflugasta forvörnin í hvoru tveggja hefur sýnt sig vera verðstýring, hvort heldur við erum að ræða tóbak eða áfengi. Að því leytinu til get ég tekið undir hugmyndir sem lúta að því að hækka gjöld á þessa tvo þætti sem eru óumdeilanlega stórir orsakavaldar að sjúkdómum sem heilbrigðiskerfið þarf síðan að glíma við. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að ræða alla hluti í þeim efnum.

Ég vænti þess að lokinni þessari umræðu að velferðarnefnd taki vel í að ræða frumvarpið út frá öllum sjónarmiðum, þau eru öll jafn gild. Ástæður þess að þetta er lagt fram eru þær sem ég hef reynt að rekja út frá greinargerð frumvarpsins og ekki síður í þeirri ræðu sem ég flyt nú í kjölfar ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.