145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[14:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum og lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Tilefni frumvarpsins er samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, svonefndur Istanbúl-samningur, sem samþykktur var á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af Íslands hálfu þann sama dag. Er frumvarpið meðal annars lagt fram svo að hægt sé að fullgilda samninginn. Markmið samningsins sem og frumvarps þessa er að sporna við ofbeldi gegn konum og ofbeldi í nánum samböndum í hvaða mynd sem það birtist. Í aðfaraorðum Istanbúl-samningsins er því meðal annars lýst að alvarlegt áhyggjuefni sé að konur og stúlkur verði oft fyrir alvarlegu ofbeldi, svo sem heimilisofbeldi, kynferðislegri áreitni, nauðgun, þvingun í hjúskap, glæpum sem kenndir séu við „heiður“ og limlestingu kynfæra sem sé alvarlegt brot á mannréttindum kvenna og stúlkna og standi verulega í vegi fyrir því að jafnrétti kvenna og karla náist.

Í þessu skyni er í fyrsta lagi lagt til að með frumvarpinu sé bætt í XXIII. kafla almennra hegningarlaga sérstöku ákvæði um ofbeldi í nánum samböndum eða heimilisofbeldi og sú tegund ofbeldis þar gerð að sérstöku broti sem geti varðað allt að 16 ára fangelsisvist ef stórfellt er. Hefur ákvæðið það að markmiði að tryggja þeim sem þurfa að þola alvarlegt eða endurtekið ofbeldi af hálfu nákominna meiri réttarvernd en gildandi refsilöggjöf gerir. Í ákvæðinu eru sérstaklega taldar upp verknaðaraðferðir sem nú þegar feli í sér sjálfstæða refsiverða háttsemi samkvæmt hegningarlögum — það er mikið atriði að þetta komi fram — sem leiða af sér refsingu að lögum, það eru ofbeldi, hótanir, frelsissvipting og nauðung. Ofbeldi í nánum samböndum getur hins vegar birst á fleiri vegu, svo sem í félagslegu ofbeldi þar sem þolandi er einangraður frá fjölskyldu og vinum og jafnvel komið í veg fyrir að hann geti sótt skóla eða vinnu; í andlegu ofbeldi þar sem beitt er grófum og endurteknum uppnefnum, niðurlægingum og ásökunum; í fjárhagslegu ofbeldi þar sem gerandi sviptir eða takmarkar aðgang þolanda að fjármunum og svo mætti lengi telja. Í því ljósi er lagt til að refsirammi ákvæðisins verði ekki bundinn við verknaði sem nú þegar geta falið í sér refsiverða háttsemi, samkvæmt almennum hegningarlögum, heldur taki það jafnframt til þess ef lífi, heilsu eða velferð þolanda er ógnað á annan hátt sem ekki getur falið í sér sjálfstæða refsiverða háttsemi samkvæmt gildandi lögum.

Í því sambandi er sérstaklega vert að geta þess að hin almennu líkamsmeiðandi ákvæði almennra hegningarlaga ná eðli málsins samkvæmt einungis til líkamlegs ofbeldis en ekki andlegs ofbeldis, svo sem kúgana, hótana eða niðurlæginga sem er algeng birtingarmynd ofbeldis í nánum samböndum. Er hinu nýja ákvæði ætlað að taka á þessu og er með því horfið frá því að líta á ofbeldi í nánum samböndum sem samansafn einstakra tilvika og athyglin færð á þá viðvarandi ógn og andlega þjáningu sem það hefur í för með sér. Í þessu felst jafnframt táknræn viðurkenning löggjafans á sérstöðu slíkra brota sem og á því að heimilisofbeldi er ekki einkamál fjölskyldna heldur varðar samfélagið allt og er vandamál sem sporna verður við. Er mikilvægt að þessi samfélagslega afstaða endurspeglist í löggjöf frá Alþingi og þau skilaboð send að um sé að ræða háttsemi sem ekki líðist í lýðræðislegu þjóðfélagi. Í lögfestingu sérstaks refsiákvæðis sem og hækkun refsiramma vegna ofbeldisbrota í nánum samböndum felast jafnframt tiltekin og mikilvæg varnaðar- og fyrirbyggjandi áhrif.

Þá er eitt af markmiðum ákvæðisins að auka réttarvernd barna sem búa við ofbeldi á heimilum. Ákvæðið verndar þannig öll börn sem eru í þeirri aðstöðu að lífi þeirra, heilsu eða velferð er ógnað, hvort sem athafnirnar sem beitt er til að skapa ógnina beinast beinlínis gegn þeim sjálfum eða gegn þeirra nánustu.

Hæstv. forseti. Fullgilding Istanbúl-samningsins kallar ekki á að sérstakt refsiákvæði, um ofbeldi í nánum samböndum, verði fest í almenn hegningarlög. Slíkt er þó mjög í anda samningsins og til þess fallið að ná fram þeim markmiðum sem þar er lýst, enda alþekkt að þolendur ofbeldis í nánum samböndum eru fyrst og fremst konur og börn. Er það jafnframt í samræmi við réttarþróun á öðrum Norðurlöndum og hefur sérstaklega verið litið til Noregs í því sambandi. Í öðru lagi er lagt til með frumvarpinu að bætt verði við nauðungarákvæði 225. gr. almennra hegningarlaga nýrri málsgrein um þvingaða hjúskaparstofnun sem geri það refsivert að neyða annan mann til að ganga í hjúskap eða undir aðra sambærilega vígslu sem ekki hefur gildi að lögum. Það að þvinga annan einstakling í hjúskap verður að teljast gróft brot gegn friðhelgi og sjálfsákvörðunarrétti þolanda sem ekki verður liðið. Ákvæðið hefur þannig að markmiði að vernda athafnafrelsi og þau grundvallar persónubundnu réttindi manna að velja sér maka án afskipta annarra. Lagt er til að það geti varðað fangelsi, allt að fjórum árum, að neyða annan mann til að ganga í hjúskap eða gangast undir sambærilega vígslu þó að hún hafi ekki gildi að lögum.

Að lokum felur frumvarpið í sér breytingar á lögsögu- og fyrningarreglum almennra hegningarlaga á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975. Í þeim ákvæðum er meðal annars mælt fyrir um að fyrningarfrestur vegna tiltekinna brota gagnvart börnum hefjist ekki fyrr en barn sem í hlut á hefur náð átján ára aldri. Fyrningarfrestur í íslenskum lögum er í samræmi við ákvæði samningsins ef frá er talin fyrning sakar vegna fóstureyðingar án samþykkis móður, samanber 2. mgr. 216. gr. almennra hegningarlaga og fyrning saka vegna þvingaðra ófrjósemisaðgerða, samanber 31. gr. laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir og í lögum nr. 25/1975 er lagt til að fyrningarfrestur vegna brota á þessum ákvæðum hefjist ekki fyrr en það barn sem í hlut á hefur náð 18 ára aldri.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins. Ég fer fram á að frumvarpið verði sent til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til þóknanlegrar meðferðar og afgreiðslu og 2. umr.