145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[14:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar og vil lýsa því yfir þar sem ég fer í andsvar að ég styð þetta frumvarp svo sannarlega heils hugar. Ég tel að það sé mjög gott og mikilvægt að gera þessa breytingu á almennum hegningarlögum og styrkja baráttuna svo hægt sé að taka á ofbeldi sem sérstaklega er beint gegn konum og þar með talið heimilisofbeldi.

Mig langar að ræða við hæstv. ráðherra vegna þess að við höfum nú á haustmissiri rætt talsvert um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Í rannsókn sem gerð var á vegum meðal annars Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum kemur fram að flestar þær fötluðu konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi hafa verið beittar heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi, en það er líka bent á að konur sem bjuggu á stofnunum eða í sértækum búsetuúrræðum hafi einnig lýst ofbeldi og viðvarandi valdníðslu og kúgun á eigin heimilum. Mig langar að taka þessi mál saman í samhengi. Meðan Alþingi var í leyfi kom svar frá hæstv. innanríkisráðherra við fyrirspurn minni varðandi störf lögregluembætta landsins og hvernig fræðslu um ofbeldisbrot gegn fötluðu fólki almennt og fötluðum stúlkum og konum sérstaklega væri háttað í menntun bæði lögreglumanna og dómara. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé sammála mér í því að við þurfum að styrkja það hvernig tekið er á þessum þáttum þegar upp kemur grunur um ofbeldi, sérstaklega gegn fötluðum konum, til þess einmitt að lagaákvæði eins og hér eru lagðar til breytingar á nái til allra kvenna.