145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[15:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það þarf að taka mjög skýrt fram að að sjálfsögðu er þessu ákvæði ætlað að ná til allra kvenna, allra þeirra sem verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum, það geta reyndar líka verið karlar. Svo vitum við náttúrlega að það eru oft á tíðum börn. Þetta er tilgangur ákvæðisins. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni var ekki á okkur nein lagaskylda að breyta almennum hegningarlögum með þeim hætti sem hér er gert. Það leiddi ekki af samningnum að gera það af því að það er brot á öðrum ákvæðum laganna sem þarna er vísað til. Sá verknaður sem þarna er vísað til er ólögmætur, refsiverður á grundvelli almennra hegningarlaga. En með því að hanna sérstakt ákvæði er verið að taka utan um heildarverknaðinn sem að okkar mati er mjög mikilvægt og endurspeglar ekki aðeins daginn í dag heldur þá miklu þróun sem hefur orðið í refsirétti og er stöðugt. Ég vil að það sé alveg skýrt að að sjálfsögðu er verið að tala um allar konur.

Síðan er rétt að taka undir það með hv. þingmanni að við þurfum að gera betur í að halda utan um þá þætti sem snúa að þessum brotum og ýmsum öðrum brotum líka. Við erum einmitt að líta til þess þegar við lítum til lögreglumenntunar. Það út kom skýrsla, ég held að það sé fast að ári síðan, vegna kynferðisbrota. Þá var verið að vekja athygli á því að kannski væri ástæða til að huga betur að menntun í löggæslunni. Það voru ekki síst lögreglumenn sjálfir sem kölluðu eftir því. Þeir sem starfa í þessu finna mest hvar skóinn kreppir. Löggjafinn reynir síðan að fylgja á eftir. Þarna erum við að stíga afar stórt skref, tel ég, í þróun í refsirétti. Ég hlakka til þegar málið kemst aftur til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég veit að það fær mjög góða umfjöllun þar. Hér erum við virkilega að tala um þróun á refsiréttinum til framtíðar. Það er alveg hægt að taka út kafla úr hegningarlögunum, þótt ég hafi stundum verið að gæla við heildarendurskoðun breytir það því ekki að við þurfum að taka út kafla og kafla og eftir mikla vinnu sjáum við þetta ákvæði.