145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Frétt, ekki ný af nálinni, um lyfjanotkun Íslendinga vakti athygli mína; hún var rædd í Speglinum og er á vef Ríkisútvarpsins. Þar segir að Íslendingar eigi Norðurlandamet í inntöku svefnlyfja, verkjalyfja, þunglyndislyfja og kvíðastillandi lyfja og heimsmet í notkun örvandi lyfsins metýlfenídats, sem er meðal annars gefið við ADHD.

Það virðist vera, miðað við umræðuna, að ekki liggi fyrir hvernig á því stendur að við erum á þessum stað. Það sem gæti verið jákvætt er að við séum að veita góða heilbrigðisþjónustu, allir hafi aðgang að henni, við séum að greina alla sem þurfa á þessum lyfjum að halda. Það væri þá gott. En þetta geta líka verið vísbendingar um að verið sé að ofgreina vanda og í tilfelli þar sem talað er um svefnlyf, þunglyndislyf, kvíðastillandi lyf að við séum að búa til samfélag sem fólk ræður ekki við. Ég hef áhyggjur hvað varðar svefnlyfin, ég hef líka séð greinar um mikla notkun svefnlyfja á öldrunarheimilum. Svefnlyf eru ekki langtímaúrræði og er ekki hægt að nýta sem slík. Þetta veldur mér áhyggjum.

Talað var við hæstv. heilbrigðisráðherra í þessari frétt og mér finnst viðbrögð hans ágæt, það á að skoða þetta nánar. Eftirlit hjá landlæknisembættinu hefur verið bætt, ég held að það sé gott. Ég kalla þá eftir því að gengið sé í málið. Það getur ekki verið eðlilegt að við eigum Norðurlandamet í þessari lyfjanotkun. Ég held líka, þegar við tölum um ýmis önnur lyf, blóðþrýstingslyf og annað slíkt, að við séum mjög (Forseti hringir.) ofarlega á listum. Ég held að við þurfum að skoða þetta miklu betur og velta því fyrir okkur hvað sé til ráða.


Efnisorð er vísa í ræðuna