145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

ásakanir þingmanns.

[15:39]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er í hæsta máta óeðlilegt að vegið sé að manni á þann hátt að maður sé handbendi útgerðarinnar í landinu eða annarra aðila. Það hef ég aldrei verið. Ég hef ekki alltaf talað máli útgerðarinnar úr þessum stól en ég tala máli þjóðarinnar þegar ég tala um þá hagsmuni sem við eigum í þessu sambandi. Það er engin launung hvaða stuðning ég fékk fyrir síðasta prófkjör. Það liggja frammi hjá Ríkisendurskoðun allar upplýsingar um það. Ég held að ég hafi fengið 100 þús. kr. frá einu útgerðarfyrirtæki. Ég hef aldrei talað málefnum þess eða neins annars. (Gripið fram í.) Ég man reyndar ekki upplýsingarnar vegna þess að ég er svo sem ekkert að velta þessu fyrir mér, en það er alveg sama hverjir studdu mig, það hefur enginn bankað í bakið á mér eða ég bitið í hönd einhvers. Þetta er skammarlegt. Það er til háborinnar skammar, að það skuli vera ráðist svona að þingmönnum og talað í þannig tón að verið sé að svíkja þjóðina með því að beita (Forseti hringir.) afli sínu fyrir einhverja sérstaka aðila. Það er skammarleg (Forseti hringir.) umræða, skammarlegt af ykkur — skammist ykkar.