145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

ásakanir þingmanns.

[15:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Kvótakerfið og fjárframlög til stjórnmálaflokka eru nokkuð sem ekki er bara eðlilegt að ræða heldur eigum við að ræða það. Það er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt, sérstaklega í ljósi þess — ég vænti þess að þær tölur sem ég er að horfa á núna séu staðreyndir, það eru fjárframlög frá sjávarútveginum til stjórnmálaflokka. Þetta eru varla fréttir, ef mönnum þykir þetta hneyksli er væntanlega ástæða til að skoða það eitthvað frekar.

Hins vegar kem ég hingað til að ræða aðeins hugtakið lygar. Ég er sjálfur ekki brigðulli en svo að mér þykir vænna um sannleikann en kurteisi og kippi mér ekkert endilega upp við það að menn noti ljót orð í sjálfu sér. Þegar maður vill hins vegar leiðrétta eitthvað hjá einhverjum öðrum finnst mér almennt ekki gott að gefa sér að viðkomandi sé vísvitandi að segja ósatt eða vísvitandi bera á torg röng gögn. Ef gögnin eru röng, ef eitthvað er sagt sem er rangt, sem við gerum öll af og til, er sjálfsagt að leiðrétta það. Hins vegar er óþarfi að kalla það lygar, einfaldlega vegna þess að það eru ekki lygar þótt það sé jafnvel hugsanlega rangt sem ég hef engar forsendur til að telja.

Við þurfum ekki að tala svona hvert við annað. Að því sögðu segi ég að ég er ekkert viðkvæmur fyrir dónaskap almennt eins og alþjóð kannski veit. Mér finnst þó að við eigum að gefa hvert öðru smátækifæri til að tjá okkur án þess að fara út í svona orðanotkun.