145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

ásakanir þingmanns.

[15:43]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég er aftur á móti mjög viðkvæmur fyrir því að sannleikurinn sé hafður að leiðarljósi. Ég er viðkvæmur fyrir því og vil hafa það sem sannara reynist. Þannig hef ég alltaf starfað. Ég held að þú getir ekki hafa átt við neinn annan þingmann en mig þegar þú ræddir þessi mál vegna þess að ég er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur talað um þessi mál, um viðskiptabann á Rússa, úr þessum stól eftir því sem ég veit best. Ég hef gert það oftar en einu sinni (Gripið fram í.) og oftar en tvisvar. Ég er eini þingmaðurinn sem hefur barist fyrir því að við snerum af þessari braut með þetta viðskiptabann. Það hefur ekkert með einstakar útgerðir að gera. Það eru bara hugsjónir mínar fyrir mörkuðum Íslands sem áunnist höfðu í Rússlandi á sínum tíma fyrst og fremst sem ég átti meðal annars þátt í að afla.

Ég þekki þá vinnu sem þar var að baki, þá miklu erfiðleika sem var farið í gegnum til að ná þessum mörkuðum og hversu miklir sigrar unnust. Mér finnst grátlegt að við og ríkisstjórnin og þið takið þátt í því (Forseti hringir.) að skemma það mikla starf.


Tengd mál