145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Það er nú einu sinni þannig í réttindabaráttu aldraðra fyrir því að búa við þannig kjör að þeir fái mat, umönnun o.fl. að þeir geta ekki hótað miklu til þess að fá kjör sín leiðrétt. Það eina sem þeir geta kannski hótað er að verða gamlir. Mér finnst hreinlega ömurlegt að horfa upp á daglegar fréttir um að fólk fái ekki mat, það fái ekki almennilega umönnun og það fái ekki inni á hjúkrunarheimilum. Þetta er ekkert nýtt vandamál en það virðist alltaf verða umfangsmeira og umfangsmeira. Það er einfaldlega út af því að við búum við kerfislægan vanda.

Ég upplifði að afi minn heitinn beið gríðarlega lengi eftir að fá að komast inn á elliheimili, sem hann komst aldrei inn á. Það er dálítið langt síðan. Hann bjó í pínulitlu herbergi hjá Hjálpræðishernum. Hann dó á geðveikrahæli út af því að vonleysið var orðið svo mikið. Ég átti líka ömmu sem var á Grund og aðbúnaðurinn og aðstæður þar fyrir gamalt fólk eru hreint út sagt ömurlegar.

Ég velti fyrir mér hvort það sé rétt að kerfið sem heldur utan um þá sem lögðu grunninn að samfélagi okkar sé einkarekið. Mér sýnist, ef ég skoða samfélögin í kringum okkur, það fyrirkomulag hafa orðið til þess að allt of margir falla á milli, allt of margir bíða og búa við hrikalegan skort, hvort sem hann er félagslegur, tengdur umönnun eða öðru. Mér finnst (Forseti hringir.) ósæmandi þessari þjóð að koma þannig fram við fólkið sem lagði grunninn að samfélaginu og lagði svo mikið á sig til að við (Forseti hringir.) byggjum við það sem við búum við í dag. Við horfum fram hjá því.

Það er kominn tími til að gera eitthvað strax, ráðherra.