145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Rekstrarvandi hjúkrunarheimila eða daggjaldastofnana sem sinna öldruðum er vissulega ekki nýr af nálinni, en ég held að það sé að birtast okkur núna að þessi vandi er orðinn að útbreiddum bráðavanda þannig að ekki verður lengur við það búið. Þann þunga upplifir maður í umræðum um þessi mál. Það vekur auðvitað athygli og dregur athyglina að misgenginu í afkomu ríkis og sveitarfélaga að sveitarfélögin sitja uppi með hallann. Ríkið stærir sig af því að vera gert upp með afgangi núna og lækkar tekjur sínar hægri vinstri, en sveitarfélögin búa við miklar þrengingar og sitja á sama tíma í stórum stíl uppi með það að borga hallann af rekstri málaflokks sem er á ábyrgð ríkisins. Það er ekki nema von að það sé þungt í sveitarstjórnarmönnum sem búa við þetta ár frá ári, svo maður tali nú ekki um sjálfseignarstofnanirnar sem eru í enn verri stöðu að því leyti að þær hafa enga aðra tekjustofna til að sækja í til að brúa bilið.

Það þarf auðvitað líka að hafa í huga framtíðarþörfina og hvernig við mætum henni. Þetta er vissulega risavaxinn málaflokkur. Það er alveg ljóst að við þurfum líka að byggja hjúkrunarheimili á komandi árum. Ónefndur jafnaldri minn sem ég hitti á götu upplýsti mig um að við værum stærsti árgangur Íslandssögunnar. Ég hafði ekki áttað mig á því. Ég veit að vísu að 55-módelið er mjög gott módel, en að við værum stærsti árangur Íslandssögunnar vissi ég ekki og hef þennan mann fyrir því.

Hið rétta er að mjög stórir árgangar eru núna að færast nær þeim aldri að þurfa á þjónustu af þessu tagi að halda. Það verður ekki undan því vikist að mæta því. Við ætlum okkur á grundvelli þeirrar stefnu sem nú er að leysa þetta með því að menn fái fyrst og fremst eins mikla aðstoð heim og hægt er. Vonandi verður húsnæði á komandi árum og áratugum á Íslandi þannig að það bjóði upp á slíkt og ekki verði veittur of mikill afsláttur af byggingarreglugerðum hvað það varðar. Við leysum vandann að hluta til með hvíldarinnlögnum og dagvistun, en svo þurfum við hjúkrunarheimili. Eini þátturinn sem er kannski (Forseti hringir.) á útleið úr þessu eru þá dvalarheimili í hinum gamla stíl. (Forseti hringir.) Gott og vel, en hinu þurfum við að mæta. Ég held að það sé mikil óvissa uppi í þessum málaflokki akkúrat þessa mánuðina (Forseti hringir.) sem við tölum, samanber þær upplýsingar sem velferðarnefnd fékk um hvernig horfir í samningaumleitunum sjúkratryggingastofnunar við rekstraraðila.