145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum þessa umræðu og hæstv. ráðherra svörin. Ég þykist greina það af umræðunni að það er ríkur pólitískur vilji þvert á alla flokka til að bæta úr þeirri stöðu sem upp er komin. Þar megum við samt ekki rugla saman langtímastefnu — sem vissulega er mikilvægt að gera og þarf að byggjast upp á ólíkum þáttum heimahjúkrunar, hvíldarinnlagna og svo rekstri hefðbundinna hjúkrunarheimila og ég er viss um að þar þarf eðlileg stefnumótun að fara fram um það hvernig við sjáum vægi þessara þátta fyrir okkur í framtíðinni — og síðan verkefnunum sem eru brýn. Þar vitna ég til lífeyrisskuldbindinganna. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra hvað varðar lífeyrisskuldbindingar þeirra hjúkrunarheimila sem eru rekin af sveitarfélögum að það hefur ekki verið ráðist í það verkefni. Þar brýni ég ríkisstjórnina og hæstv. fjármálaráðherra, samstarfsmann hæstv. heilbrigðisráðherra, að ráðast í það verkefni. Það er líka mikilvægt að hjúkrunarheimili sitji við sama borð óháð því hver rekstraraðilinn er þegar við horfum á þennan þátt, sem hefur auðvitað áhrif á rekstur þessara heimila.

Bráðaverkefnið er að leysa úr fjárframlögunum til heimilanna, daggjöldunum á hvern heimilismann sem þarf að nást samkomulag um. Hæstv. ráðherra sagði áðan að ræða þyrfti inntak þjónustunnar sem við veitum. Ég legg á það mjög mikla áherslu að ég vil að minnsta kosti ekki sjá þá þjónustu skerta. En það þarf að liggja fyrir ef ætlunin er að skerða þjónustuna, ég skil þá sem reka þessi heimili og vilja fá skýr svör, hvaða þjónustu eigi þá að skerða. Ég átta mig á því að verkefnið er umfangsmikið. Það er kostnaðarsamt. Ég held að eitt af því sem við Íslendingar þurfum að horfast í augu við eins og aðrar þjóðir, miðað við lýðfræðilega þróun, sé að þessi liður á eftir að kosta okkur meira í framtíðinni.

Ég legg á það áherslu og spyr hæstv. ráðherra að lokum hvenær við megum eiga von á því (Forseti hringir.) að sjá eitthvað á borðinu um það hvenær samkomulag getur náðst um þessi mál, þannig að (Forseti hringir.) hjúkrunarheimilin og ekki síst heimilisfólk þeirra þurfi ekki að búa við þessa óvissu.