145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þá er enn tekið til við að ræða þetta mál, sem almennt gengur undir vinnuheitinu brennivín í búðir. Þetta mikla forgangsmál, sérstaklega þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem er svo mikið forgangsmál að það er nánast látið ryðja öllu öðru hér til hliðar og önnur þingmannamál komast dögum, vikum og mánuðum saman ekki að.

Ég hef velt svolítið fyrir mér hver staðan er orðin í þessum efnum í Sjálfstæðisflokknum. Ég dreg þá ályktun miðað við mína pólitísku analýtísku hæfileika að í reynd hafi svokölluð stuttbuxnadeild eða stuttbuxnakynslóð Sjálfstæðisflokksins endanlega yfirtekið flokkinn. Ég velti stundum fyrir mér: Eru engir sjálfstæðismenn eftir sem láta það stundum eftir sér að hafa aðra sýn á hlutina en bara þessa þröngu, blindu nýfrjálshyggjumarkaðsvæðingarsýn? Hvar er húmaníski armur Sjálfstæðisflokksins sem á árum áður gaf þeim flokki breidd? Þá voru öflugir talsmenn innan raða sjálfstæðismanna sem stóðu vörð um velferðarsamfélagið, stóðu vörð um ýmis gildi þess, þó að þeir væru borgaralega sinnaðir. Svo maður tali nú ekki um: Hvar er Árni Helgason, blessuð sé minning hans, Sjálfstæðisflokksins í dag? Eru þeir engir til lengur í Sjálfstæðisflokknum sem ýta kreddunum stundum til hliðar og taka raunsæisafstöðu þar sem húmanísk viðhorf, samfélagsleg, félagsleg viðhorf, hafa vægi á móti markaðskreddunum? Mér finnst fullgilt að bera upp þessa spurningu í ljósi þess hvílíkt ofboðslegt forgangsmál margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins þetta greinilega er og að engar raddir skuli heyrast úr þeim ranni aðrar. Auðvitað veit ég betur. Ég veit að þau viðhorf eru ekki algild í Sjálfstæðisflokknum að þetta sé gáfulegur leiðangur. Ég hitti sjálfstæðismenn á götu sem hvetja mig og aðra slíka áfram í því að reyna að koma í veg fyrir að þetta mál verði að lögum. Berjast gegn því. Þeir taka enn þá hina húmanísku samfélagslegu sýn á hlutina og vilja hafa hana í öndvegi en ekki kreddurnar.

Að einu leyti vil ég hrósa þessu frumvarpi. Höfundar þess viðurkenna í reynd og fallast á að afleiðingar af lögfestingu þess muni verða aukin áfengisneysla og aukin áfengisvandamál. Þeir gera það meðal annars með því að leggja til að hlutdeild lýðheilsusjóðs í áfengisgjaldi hækki úr 1% í 5% og munar nú um minna. Beinlínis til að hægt sé að fara í stórefldar lýðheilsuaðgerðir til að sporna gegn því að afleiðingar frumvarpsins nái af fullum þunga fram að ganga. Það er virðingarvert svo langt sem það nær. En það þarf auðvitað ekki að breyta smásölufyrirkomulagi áfengis til að hækka framlög í lýðheilsusjóð. Ég hefði gjarnan viljað, virðulegi forseti, að sjálfstætt frumvarp mitt um að gera bara það, væri haft hérna á dagskrá með þessu máli þó að það sé með nokkru lægra þingskjalsnúmeri og þó ekki því það er á þingskjali 62. Ef til þess er pólitískur vilji að efla lýðheilsustarf í landinu með auknum fjárveitingum skulum við gera það og vera ekki að blanda þessu ákaflega umdeilda máli um fyrirkomulag áfengissölu inn í það efni.

Það er oft sagt að reynslan sé ólygnust dómara. Ég held að það eigi við hér. Staðreyndin er sú að öll Norðurlöndin fjögur sem hafa byggt á sambærilegu fyrirkomulagi og Ísland hafa staðið vörð um það fyrirkomulag þvert á flokka í mörgum tilvikum og varið það í samningum við alþjóðastofnanir og samtök og jafnvel staðið í málaferlum fyrir Evrópudómstólnum til að verja áfengiseinkasölu ríkjanna. Má þar nefna til dæmis glímu Svía við að verja sitt fyrirkomulag. Þegar Norðurlöndin fjögur sem ekki áttu þá aðild að Evrópusambandinu eða EES-svæðinu sömdu um þau mál og í framhaldinu fóru tvö þeirra alla leið og sömdu um aðild að Evrópusambandinu, þá settu þau öll þann fyrirvara að ekki yrði hróflað við fyrirkomulagi þeirra hvað varðar áfengiseinkasölu ríkisins. Sá fyrirvari er í samningunum. Hann er útfærður þar og var tekinn gildur vegna þess að þetta væri liður í heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu þessara Norðurlanda. Þannig er litið á málið. Hér er auðvitað reynt að færa það í þann búning að þetta sé bara einfalt verslunarmál, þetta sé eins og hver önnur vara. En þannig hafa menn aldrei nálgast það í þeim löndum og fylkjum til dæmis þar sem þetta er hluti af heilbrigðis- og lýðheilsustefnu viðkomandi landa eða svæða.

Reynslan er sú að þessi vandamál hafa verið hvað minnst á Norðurlöndunum og öðrum þeim svæðum sem viðhafa þetta fyrirkomulag. Það sýna tölulegar staðreyndir. Eða halda menn að þeir alþjóðlegu rannsóknaraðilar, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og aðrir slíkir, sem hvetja önnur lönd til að fylgja fordæmi Norðurlanda fari með tómt fleipur? Nei, menn byggja þar á staðreyndum, mælingum og rannsóknum sem sýna að aðhaldssöm stefna af þessu tagi þar sem ríkið heldur utan um söluna á þessum viðkvæma varningi og nær að hrinda með þeim hætti í framkvæmd stefnu sinni um hvernig þessu skuli fyrir komið skilar árangri, bestri niðurstöðu. Þetta er vel þekkt. Gæti nú ekki verið að við þyrftum ekkert út fyrir Norðurlöndin til að sjá þennan samanburð? Hvaða Norðurlönd, sjálfstæð lönd og sjálfstjórnarsvæði, búa við mestan vanda í þessum efnum? Það eru Danmörk og Grænland, sem eru með það fyrirkomulag sem hv. flutningsmenn frumvarpsins vilja fara í. En annars staðar á Norðurlöndunum er ástandið betra. Neyslan er minni og betra utanumhald um hluti eins og þá að fólk undir aldri nái ekki að kaupa sér áfenga drykki o.s.frv.

Reynslan, ef hún fengi að ráða, ætti að duga mönnum ein og sér til þess að hverfa frá stuðningi við frumvarpið. Ef þeir velta fyrir sér í hvaða forgangsröð þeir vilja láta hlutina leggjast þegar þeir taka afstöðu til mála og veltu fyrir sér samfélaginu, velferð barna og unglinga, þeim þúsundum fjölskyldna sem eiga um sárt að binda vegna áfengismála, ætti það líka að duga til að menn styddu ekki þetta mál. En auðvitað ef blind hugmyndafræði eða það að þjóna einhverjum öðrum hagsmunum hefur yfirhöndina geta menn sjálfsagt komist að þessari niðurstöðu. En flutningsmenn ættu að minnsta kosti að vita að þetta er ákaflega umdeilt. Þetta væri samþykkt, ef það einhvern tíma verður, gegn ráðum og afstöðu allra faglegra umsagnaraðila. Eða er það nokkur misskilningur að landlæknisembættið og Lýðheilsustöð, heilbrigðisstéttirnar eins og þær leggja sig, öll samtök sem koma að ungmennastarfi og félagsstarfi í landinu, hvetji Alþingi til að gera þetta ekki? Ég veit ekki betur en að það sé yfir línuna þannig að faglegir umsagnaraðilar á sviði heilbrigðismála, félagsmála og samfélagsmála skori á Alþingi að gera þetta ekki. Menn mega vera býsna „tapper“, býsna öruggir um sjálfa sig ef þeir ýta slíku algerlega til hliðar og gefa því ekkert vægi. Það er almennt ekki talið að það styrki málstað að hafa alla faglega umsagnaraðila eins og þeir leggja sig á móti sér varðandi breytingu af þessu tagi. Enda eru rökin mjög sterk, hvort sem þau eru sótt í brunn reynslunnar eða einfaldlega í þau efnislegu rök sem hafa verið lögð til grundvallar þessu fyrirkomulagi, að þetta sé hluti af hinni aðhaldssömu stefnu á þessu sviði, tengist lýðheilsu og heilbrigðismarkmiðum viðkomandi ríkja, þar á meðal opinberri stefnu Íslands að því leyti þar sem aldeilis er ekki mælt með því að fara þessa leið. Það er eiginlega það kostulega, að sú heilbrigðis- og lýðheilsustefna sem meira að segja núverandi ríkisstjórn hefur staðfest mælir gegn þessu, hvetur til að þetta sé ekki gert.

Síðan eru ýmiss önnur afleidd rök sem auðvitað er ástæða til að fara yfir eftir því sem tíminn leyfir. Það má spyrja: Er þetta til bóta fyrir verslunina í landinu? Ýmsar ótrúlegar fullyrðingar eru í greinargerð frumvarpsins, lítt rökstuddar, eins og þær að þetta verði verslun á landsbyggðinni og landsbyggðinni almennt til blessunar. Ég læt ekki segja mér þær draugasögur í björtu. Þetta yrði verulegt áfall að mörgu leyti fyrir landsbyggðina sem fengi þá allan flutningskostnað vörunnar á sig í staðinn fyrir að honum er jafnað út innan núverandi kerfis og varan á sama verði um allt land. Hverjir mundu borga það aðrir en þeir sem keyptu vöruna á endanum í hinum dreifðu byggðum landsins? Hver er líkleg þróun af því ef þetta verður gert? Hún er sú að stóru verslunarkeðjurnar munu leggja þennan markað undir sig. Það er algerlega ljóst að þær ætla sér að sjálfsögðu að ná þessari sölu að uppistöðu til inn til sín. Þær ætla sér ekki bara smásöluálagninguna heldur líka heildsöluálagninguna. Þær munu brjóta niður heildsalana, kaupa þá upp eða þjarma að þeim þangað til þeir gefast upp, ná umboðunum fyrir söluhæstu tegundirnar og leggja þennan markað undir sig. Þá skulu menn ekki gleyma einu, að sá er stóri munurinn á að ríkið hafi þessa verslun með höndum og því að hún verði í höndum einkaaðila, að hagnaðarþátturinn kemur þá til sögunnar, ágóðinn af því að selja þessa vöru og helst selja sem mest af henni. Hann er aftengdur með því fyrirkomulagi sem við höfum í dag. Það eru nefnilega ekki bara aðgengisrök, lýðheilsu- og heilbrigðisrök og þau sjónarmið að með þessu sé hægt að halda betur utan um að aldursmörk séu virt sem þarna eru á ferðinni. Auðvitað er það líka þáttur að með þessu er verslunin í höndum aðila sem hefur það ekki að markmiði að græða á því sem slíku að selja sem mest, fá sem mesta álagningu út úr dæminu. Það kemur allt til sögunnar þegar þetta er komið í hendur einkaaðila sem reka starfsemi sína í hagnaðarskyni. Það er barnalegt að horfa fram hjá þeim þætti málsins.

Ég hef spurt marga sem eru vel að sér í verslun um þessi mál, þá sem hafa sinnt markaðsmálum hjá ÁTVR, ég hef talað við heildsala og umboðsmenn, Samkeppniseftirlitið og fleiri aðila, menn mótmæla því ekki að þetta yrði líklegasta þróunin. Smærri verslunaraðilarnir sem margir eru á móti þessu þvert á fullyrðingar flutningsmanna um að þetta verði allri verslun til góða, benda á þennan þátt: Það mun ekki styrkja okkur í samkeppni við stóru risana ef þeir verða í aðalatriðum búnir að leggja þennan markað undir sig. Við munum ekki hafa bolmagn til að flytja sjálfir inn þessa vöru, ná góðum umboðum og fjármagna lagerana. Hvað eigum við þá að gera? Við munum neyðast til að bjóða viðskiptavinum okkar samt þessa þjónustu til að vera samkeppnisfærir. Nú, við verðum að kaupa þetta af stóru keðjunum. Þannig greina þeir þetta.

Við í efnahags- og viðskiptanefnd fengum marga slíka inn á fund okkar því að við könnuðum dálítið þennan þátt málsins, hinn viðskiptalega samkeppnisþátt, og ég vísa þar í álit, að vísu ekki meiri hluta en stærsta minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem fylgdi frá okkur því að efnahags- og viðskiptanefnd fékk náðarsamlegast að segja álit sitt á málinu sem hún á samkvæmt verkaskiptingu og lögum innan Stjórnarráðsins að fá til sín, en af einhverjum ástæðum var málinu vísað í allsherjarnefnd, ekki í efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur fjallað áður um breytingar á lögum um ÁTVR, og ekki þá í velferðarnefnd sem gæti tekið við málinu á þeim forsendum að þetta væri heilbrigðis- og lýðheilsumál. Nei, allsherjarnefnd skal það vera af ástæðum sem við öll þekkjum hérna inni. Það var talið líklegast af aðstandendum málsins að þar fengi það mest brautargengi.

Séð frá verslunarsjónarhóli og samkeppnissjónarhóli af ýmsum toga má vefengja og mótmæla mjög mörgu af því með sterkum rökum sem hér er haldið fram í greinargerð með frumvarpinu. Það er til dæmis athyglisvert að lesa á bls. 9 í greinargerðinni þar sem vitnað er í McKinsey-skýrsluna um að verslunin á Íslandi sé svo óhagkvæm og það sé svo mikið húsnæði, þar með eru það orðin rök að henda lýðheilsu- og heilbrigðissjónarmiðum til hliðar til að auka aðeins hagkvæmnina og bæta nýtingu húsnæðis. Ætli væri ekki nær að reyna að vinna að því með öðrum leiðum en þeim? Á þá að fórna þeim sjónarmiðum á því altari að með því geti verslunin nýtt betur einhverja fermetra? Hvað með opnunartímann? Hvað með allan þann haug af stórmörkuðum sem er opinn allan sólarhringinn? Kostar það ekki neitt? Ætli það séu ekki aðrir þættir sem aðallega valdi því að ekki væri mikil framlegð í verslun á Íslandi.

Það er alveg sama hvar borið er niður að mínu mati, virðulegi forseti, ég finn bara alls engin góð efnisleg rök fyrir því að hverfa frá því fyrirkomulagi sem við höfum viðhaft, enda er engin sérstök óánægja með það. Þegar það er mælt á meðal almennings er ÁTVR eitt af vinsælli fyrirtækjum landsins og skorar hvað hæst í ánægjuvoginni. Af því að það veitir góða þjónustu, er ábyrgt fyrirtæki, umgengst sitt vandasama hlutverk af mikilli ábyrgð og hvetur til ábyrgðar í öllu sínu starfi, ástundar ekki auglýsingamennsku, sem er eitt mál enn sem við ættum þá að ræða. Hvernig ætli gangi að halda hið takmarkaða og illa haldna bann við áfengisauglýsingum ef þetta verður orðið að veruleika? Ekki mun það batna, svo mikið er víst, (Forseti hringir.) því að ÁTVR stendur fyrir algerlega gagnstæð sjónarmið og hvetur í kynningarstarfi sínu og starfi öllu til ábyrgðar í þessum efnum enda er það það sem það fyrirtæki á að gera.