145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var fyrsti flutningsmaður málsins. Hans veigamiklu röksemdir hér fyrir málinu sínu voru hvað? Jú, það væri nú gaman að hlusta á mig flytja sömu ræðuna og ég hefði flutt þegar hann var fjögurra ára, þegar ég greiddi atkvæði gegn því að leyfa áfengan bjór. Og svo vildi hann bara fara aftur í það mál.

Var þetta fyrsti flutningsmaður málsins? Var hann að færa fram kraftmikil og sannfærandi málefnaleg og efnisleg rök fyrir því að hann hefði á réttu að standa? Nei, hann var að reyna að flytja umræðuna yfir í það að hér stæði afturhaldsdurgur sem hefði greitt atkvæði gegn bjórnum. Já, ég gerði það. Ég hélt því að vísu aldrei fram að allt færi á hvolf, allir yrðu veltandi fullir úti um allt, eins og núverandi ritari Sjálfstæðisflokksins leggur mér í munn í viðtali og hv. þingmaður gerði að hluta til líka.

Ég færði málefnaleg rök fyrir því af hverju ég komst að þeirri niðurstöðu, sem ég var ekkert mjög eindreginn í. Ég gerði það meðal annars vegna þess að menn innleiddu bjórinn algerlega sofandi gagnvart því að það hefði afleiðingar. Ég barðist fyrir því að forvarnastarf yrði að minnsta kosti stóreflt á móti. Það var ekki samþykkt. Og hver varð niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú að áfengisneysla (Forseti hringir.) jókst. Hún gerði það. Og byrjunaraldur drykkju færðist niður. Hann gerði það. Og það voru ekkert sérstaklega góð ár sem fóru í hönd. Það leitaði svo vissulega jafnvægis. En þegar upp er staðið er áfengisneysla í dag mun meiri en hún var þá mælt í vínanda per mann á ári.