145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður benti í upphafi ræðu sinnar á að frumvarpið virðist vera sérstakt forgangsmál Sjálfstæðisflokksins og þegar þingið var sett í september og umræða var um stefnuræðuna þá nefndu báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, formaður Sjálfstæðisflokksins og einnig hv. þm. Sigríður Andersen, þetta mál sérstaklega sem sérstakt forgangs- og frelsismál. Þó er algjörlega ljóst að ef áfengisneysla eykst eins og mun gerast ef frumvarpið verður að lögum þá mun kostnaður ríkisins hækka og auk þess hafa rannsóknir sýnt að aukin áfengisneysla dregur úr hagvexti. Mér finnst þetta fara svo illa saman, þessi mikla áhersla sjálfstæðismanna á frumvarpið og þegar horft er á afleiðingarnar á ríkisfjármálin. Formaður Sjálfstæðisflokksins er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hvað vill hv. þingmaður segja um þetta?