145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu verið sammála hv. þingmanni um að það er ekkert aðalatriði málsins sem ég vék að í framhjáhlaupi og gerði ekki að aðalatriði míns máls, að þetta væri undarlega mikið forgangsmál sérstaklega þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það er bara veruleiki sem birtist okkur. Auðvitað er það hið efnislega inntak málsins sem er aðalatriði þess og frjóast að ræða það. Ég vil rökræður um það á þeim nótum. Um það eigum við að skiptast á skoðunum. Ég vil heyra svör aðstandenda málsins við málflutningi okkar þegar við vitnum í landlækni, vitnum í alþjóðlegar skýrslur o.s.frv.

Geta menn takmarkað aðgengið og stýrt því með öðrum hætti en þeim að þetta sé ríkiseinkasala? Já, auðvitað er hægt með lögum að ákveða ýmislegt í fyrirkomulagi verslunar með þennan varning, en það er mín niðurstaða að langtraustasta umgjörðin utan um það sé sú sem við og þrjú hinna Norðurlandanna höfum viðhaft og höfum varið og staðinn hefur verið vörður um í öllum þessum fjórum Norðurlandanna með þeim árangri að það er talið til eftirbreytni af þeim (Forseti hringir.) sem veita ráðgjöf á þessu sviði. Ég tel það traustasta fyrirkomulagið þótt auðvitað mætti ná einhverjum árangri með ákvæðum í lögum sem heftu og takmörkuðu (Forseti hringir.) möguleika þeirra sem versluðu með þetta annars.