145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta veikur hlekkur í málflutningi hv. þingmanns vegna þess að við höfum einfaldlega fyrir framan okkur mjög góð dæmi um það hvernig það hefur algjörlega farið saman að setja lagaumgjörð um verslun á ýmsum viðsjárverðum vörum og náð lýðheilsumarkmiðum og að vera með viðskiptafrelsi. Lyf er dæmi um eitt. Lyf eru seld í verslunum sem eru reknar af einkaaðilum en með lagaumgjörð og reglum ríkisins og ýmsar kvaðir sem fylgja þeim sem höndla með slíka vöru. Tóbak er annað mjög gott dæmi. Það er ekki ríkissala á tóbaki, tóbak er selt úti í búð, en ríkisvaldið, löggjafarvaldið, hefur sett stigvaxandi harðar reglur og lög um það hvernig megi selja tóbak. Nú má það ekki sjást í búðunum. Tóbaksneysla hefur farið hríðminnkandi. Af hverju sér hv. (Forseti hringir.) þingmaður það ekki fyrir sér að hið sama sé hægt að stunda með áfengi, það fari vel saman frelsi í því að höndla með vöruna og (Forseti hringir.) selja hana og að ná lýðheilsusjónarmiðum og þeim takmörkunum sem okkur sýnist?