145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Menn tala stíft fyrir slíku frelsi sem er helsi annarra að koma áfenginu út í allar verslanir og segja það hluta af því að þetta sé frjálst samfélag og það sé ekki einokun á þessari vöru, sem ég tel ekki vera neina almenna neysluvöru heldur vöru sem þurfi að meðhöndla sem slíka þó að hún sé leyfð. Þetta er auðvitað ekki venjuleg dagleg neysluvara.

Mér finnst oft minnimáttarkennd ríkja hjá okkur Íslendingum að segja að þetta sé svona í útlöndum og þær þjóðir lifi þetta af og það sé allt í fína lagi þar. Getum við Íslendingar, með allar þessar fyrirliggjandi rannsóknir um afleiðingar aukins aðgengis að áfengi, ekki bara rekið okkar sjálfstæðu stefnu varðandi áfengismál og hvernig við búum um það, sem reynslan hefur sýnt að hefur komið mjög vel út varðandi (Forseti hringir.) minni neyslu og hefur dregið úr neyslu ungmenna undanfarin ár? Getum við ekki haldið (Forseti hringir.) okkur við okkar sjálfstæðu stefnu og haft þetta eins og verið hefur?