145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps, tók ákvörðun um að vera það, en eins og ég sagði nú hér fyrr í dag er langt í frá að ég líti svo á að þetta sé sérstakt forgangsmál. Ég missi í sjálfu sér ekkert svefn yfir því þótt fyrirkomulagi í áfengissölu verði ekki breytt í náinni framtíð. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni er aðgengi að áfengi að mörgu leyti nægjanlegt. Ég er ekki í pólitík út af þessu máli eða eitthvað slíkt. En ég hef verið að fylgjast með umræðunni um þetta mál vegna þess að mér finnst þetta áhugavert og í þessu máli finnst mér endurspeglast ákveðinn munur á nálgun á viss grunnhugtök í pólitík, eins og til dæmis frelsi og ábyrgð. Undirliggjandi eru einhver átök um það hvernig við sjáum fyrir okkur heilbrigt samfélag og hvernig við eigum að stuðla að heilbrigðu samfélagi. Mér finnst það áhugavert.

Ég ætlaði í sjálfu sér ekkert að flytja ræðu við 1. umr. um þetta mál en ég hef verið að hlusta á mjög marga andstæðinga málsins sem hafa talað gegn þessu og ég get eiginlega ekki orða bundist lengur. Mér finnst eins og verið sé að reyna að mála upp þá mynd að ef maður er stuðningsmaður málsins sé maður orðinn málsvari krabbameins í koki og hálsi og svampbriss heyrði ég í dag, lifrarskemmda, maður er orðinn málsvari ölvunaraksturs, heimilisofbeldis og aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð; málsvari þess að komið verði illa fram við börn og þau hafi það verra og þar fram eftir götunum. Þetta magnast alltaf. Það er sífellt fleira tiltekið í þessu þannig að ég sé mig nú tilknúinn til að koma hér upp og útskýra hvað mér gengur til með að styðja þetta mál.

Það er einkum þrennt. Það eru grundvallaratriði. Mér finnst heilbrigt samfélag til langs tíma á einhvern sjálfbæran hátt vera frjálst samfélag. Mér finnst að í heilbrigðu samfélagi fari saman frelsi og ábyrgð. Ég nota stundum dæmið af því hvernig Íslendingar umgangast veðrið og náttúruna í þessu sambandi. Við erum frjáls til að ferðast á Íslandi en við Íslendingar vitum hins vegar, af langvarandi umgengni við náttúruna og ferðafrelsi, að okkur ber að klæða okkur vel þegar við förum út í vont veður, okkur ber að búa okkur vel. Það er engin forræðishyggja, engin reglugerð í sjálfu sér eða löggjafarvald sem kemur í staðinn fyrir þessa ábyrgð sem verður til í frjálsu samfélagi. Þetta er ákveðin grunnnálgun en ég geri mér algerlega grein fyrir því að samfélagið getur ekki verið haftalaust. Ég vil nota ýmsa hvata til að reyna að stuðla að lýðheilsu. Ég vil nota lagasetningarvaldið og reglugerðarvaldið til að stuðla að því líka. En þetta er ákveðin grunnnálgun. Og ég held að við höfum verið að horfa upp á þetta hvað varðar áfengisneyslu og neyslu á öðrum vímugjöfum, mjög heilsuspillandi, eins og tóbaki. Það hefur verið aukið frelsi, aukið aðgengi.

Hér úti á Austurvelli er hægt að fara á tíu til fimmtán staði, ég veit það ekki, og kaupa sér áfengi eftir tvær mínútur, eftir því hvað maður er lengi að labba þangað. Þetta var ekkert svona. Þetta hefur allt aukist. Ég held samt að mér sé alveg óhætt að fullyrða að áfengismenningin hafi batnað. Og þrátt fyrir að stór skref hafi verið stigin eins og til dæmis að leyfa bjór, leyfa sölu á áfengum bjór. Áfengisneysla á mann hefur vissulega aukist. En áfengismenningin — ég held að flestir taki undir það — hefur batnað.

Þannig að það er ýmislegt í þessu og dæmin eru fyrir framan okkur. Sala á tóbaki er frjáls. Hún var ekki frjáls. Sala á lyfjum er frjáls. Hún var ekki frjáls. Samt held ég að samfélagið sé mun betra en áður fyrr, að minnsta kosti þegar kemur að umgengni við tóbak. Neysla á tóbaki minnkar ár frá ári þrátt fyrir að salan sé frjáls. En lagasetningarvaldið er hér, hér setjum við umgjörðina. Það er ekkert verið að tala um að breyta því.

Mér finnst þetta skref sem mundi gera að verkum að fólk gæti valið sér að kaupa áfengi í matvöruverslunum eða öðrum verslunum en einungis ríkisreknum verslunum, mundi auka ábyrgð, bæta áfengismenningu og vera í takti við önnur skref sem við höfum stigið, mjög hófsöm skref í átt að auknu frelsi sem hafa einmitt aukið ábyrgð og bætt áfengismenningu. Það er mikið talað hér um rannsóknir og skýrslur. Ég hef lesið minn skerf. Eitt af því sem vekur athygli mína er að Íslendingar skora frekar hátt þegar kemur að misnotkun áfengis, tarnadrykkju. Það er ýmislegt sem bendir til að sérverslun, hvort sem hún er ríkisrekin eða ekki, með áfengi, stuðli að tarnadrykkju. Maður getur náttúrlega notað hyggjuvit til að halda því fram. Ef maður þarf alltaf að fara á sérstakan stað til að kaupa vínið er líklegt að maður kaupi mikið vín og fari þangað vegna þess að maður ætli sér að fara á eða stuðla að fylliríi. Kaupi þess vegna mikið. Hins vegar er bent á í sömu skýrslum, til dæmis á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar, að í samfélögum þar sem áfengi er mikið drukkið með mat sé áfengismenningin betri. Þar er tarnadrykkja minni, misnotkun áfengis minni.

Ég spyr þá: Ef við viljum fara þá leiðina með þetta samfélag, sem er orðið nokkuð vanara áfengisneyslu, að við viljum frekar stuðla að því að áfengi sé minna misnotað og þess meira neytt með mat, er þá ekki skynsamlegt að selja það með mat? Selja það á þeim stöðum? Tengja það því? Mundum við kannski ekki sjá að þegar áfengi er verslað þannig, í svoleiðis búðum, minnki þessi stórinnkaup á áfengi, minnki þessi krafa samfélagsins að vera alltaf að kaupa mikið áfengi í einu og hella í sig? Þetta er ekki úr lausu lofti gripið. Ég er að vísa í ýmsar rannsóknir sem benda til þess að við séum að misnota áfengi. Það getur vel verið að það sé fyrirkomulagið á sölunni sem stuðlar að því.

Ég vil að ríkið einbeiti sér að grunnþjónustu. Ég vil hafa öflugt og skilvirkt ríkisvald þegar kemur að grunnþjónustu og uppbyggingu innviða og því að setja leikreglurnar fyrir samfélagið. Ég lít ekki svo á að rekstur áfengisverslunar sé grunnþjónusta, eitthvað sem ríkisvaldið eigi að gera. Mér finnst það í raun óheilbrigt og vont fyrirkomulag að sami aðilinn sjái um lagasetningu varðandi umgjörð áfengisverslunar og -neyslu — hann stuðli að alls konar lýðheilsuverkefnum til að sporna við áfengisneyslu, og annist eftirlit með áfengissölu — og selji svo líka áfengi. Ég held að það sé skynsamlegra að sala áfengis sé á annarra herðum og ríkisvaldið einbeiti sér að eftirlitshlutverkinu, að því að setja sölunni skynsamlegar skorður og ná lýðheilsumarkmiðum varðandi áfengisneyslu, setja skynsamlega áfengisstefnu. Þetta er heldur ekki úr lausu lofti gripið hjá mér, ég byggi þetta einfaldlega á því hvernig við nálgumst ýmislegt annað sem er varhugavert í samfélagi okkar. Svona nálgumst við sölu á lyfjum. Við setjum reglurnar hér og lögin, svo eru það einkaaðilar sem sjá um verslunina. Svona er líka fyrirkomulagið varðandi skotvopn, sprengiefni, tóbak. Hér setjum við reglurnar, svo annast aðrir söluna og haft er eftirlit með því að farið sé eftir því.

Eitt vekur athygli mína við lestur mjög viðamikillar skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um stöðu áfengismála í löndum heims. Ég held að það sé nú nánast tæmandi samantekt á því hvernig áfengisstefnan er í löndum heims, þessi skýrsla frá 2014. Þar eru raktir ýmsir faktorar sem skipta máli í því hvernig áfengismenningin er og hver áfengisneyslan er, hvort hún er heilbrigð, þessi áfengismenning, eða ekki. Það vekur mikla athygli mína að algerlega er lagt að jöfnu í þessari skýrslu hvort fyrirkomulag sölunnar sé þannig að ríkið beinlínis annist hana í verslunum eða hvort ríkið eða hið opinbera gefur út leyfi og setji skilyrði og takmarkanir. Þetta er algerlega lagt að jöfnu. Þetta vekur athygli mína í ljósi þessarar umræðu. Hvað erum við að tala um hér? Hér á bara að stíga það skref að ríkið hætti að annast söluna og einkaaðilar annist hana — en með opinberu leyfi og opinberum skilyrðum. Mér sýnist að af sjónarhóli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar séum við að gera mjög lítið og hreyfa við mjög áhrifalitlum faktor þegar kemur að því hvort við hróflum eitthvað við áfengismenningunni til hins verra. Aðrir faktorar eru hins vegar nefndir þarna sem eru mjög áhrifamiklir. Til dæmis það hvort áfengi verði selt á bensínstöðvum. Það er eitt sem er nefnt þarna. Það stendur ekki til hér þó að það sé reyndar komið þangað í samfélaginu eins og er, án þess að nokkur hafi sett um það reglur. Það er talað um takmörkun á aldri. Við komum aðeins inn á það í andsvari áðan, í samræðu við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Það skiptir mjög miklu máli hvert aldurstakmarkið er. Í Danmörku er það 16 ár. Þar er unglingadrykkja mjög mikil. Hér er 20 ár. Það er ekki verið að tala um að breyta því. Það verður áfram 20 ár. Hvað áfengi kostar skiptir mjög miklu líka. Í sumum löndum eru ekki lögð á nein áfengisgjöld og áfengið er bara hræódýrt. Augljóslega er það stór faktor sem hefur áhrif á það hvernig áfengi er drukkið í þeim löndum. Hér eru mikil áfengisgjöld og enginn að tala um það hér að minnka þau. Ég held að það sé samkomulag um að það er veigamikill faktor í að minnka áfengisneyslu.

Mér finnst andstæðingar frumvarpsins stundum tala eins og verið sé að stíga hér alveg rosalegt skref. Ég veit ekki hvernig ræðurnar væru öðruvísi ef við værum bara að tala um að leyfa áfengi í samfélagi sem hefði bannað það hingað til. Mér finnst ræðurnar vera þannig. Það er eins og verið sé að stíga skref sem muni stuðla að áfengisneyslu á Íslandi í fyrsta sinn. Þetta er ekki það. Hér er bara verið að koma á frelsi í versluninni, byggt á því grundvallarsjónarmiði sem ég hef verið að lýsa stuðningi við, að ríkið eigi ekki að annast verslun, að það séu aðrir aðilar þarna úti sem hafa metnað til þess og þekkingu á því að annast verslunina.

Ég sagðist byggja stuðning minn á þremur grundvallaratriðum. Ég held að ég hafi nefnt þau öll. Ég styð samfélag frelsis og ábyrgðar. Ég held að við séum að stíga þau skref í þessu frumvarpi. Ég vil að ríkið einbeiti sér að grunnþjónustunni og sé ekki í verslunarrekstri, það sé annarra að gera það. Og ég vil bæta áfengismenninguna. Ég held að þetta skref mundi gera það.

Síðan er talað um að þetta skref mundi hafa vond áhrif á verslun með áfengi. Ég stóð fyrir því að efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta þingi gaf út meirihlutaálit þar sem svolítið var fjallað um þessi sjónarmið. Það eru vissulega, held ég, markaðsbrestir í smásölu á Íslandi. Það er tilhneiging til þess að stórir aðilar taki yfir sölu á vörum. En ég spyr á móti: Af hverju á okkur að vera eitthvað sérstaklega annt um áfengi í þessu? Ef við höfum áhyggjur af markaðsbresti í smásölu, ættum við ekki að hafa meiri áhyggjur af nauðsynlegri vörum en áfengi? Til dæmis mat? Af hverju viljum við þá ekki ríkisverslun með mat ef þetta eru áhyggjurnar? Væri ekki heilbrigðari nálgun að reyna frekar að berja í þá bresti sem við sjáum mögulega í samkeppnisumhverfinu á Íslandi? Reyna að koma á skynsamlegu umhverfi í þeim efnum? Eru það á einhvern hátt rökrétt viðbrögð, við því að hugsanlega séu markaðsbrestir í íslenskri smásölu, að áfengi fái einhverja sérstaka meðhöndlun og sé í einhverri sérstakri opinberri verslunarkeðju svo að stuðla megi að því, í þessu gallaða umhverfi, að áfengissalan sé að minnsta kosti æðisleg? Ég skil ekki alveg þessar röksemdir.