145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað á að hlusta á þá aðila. Ég geri það sem þingmaður Bjartrar framtíðar og vona að þingmenn annarra flokka geri það líka. Okkur er líka uppálagt hér að hafa okkar skoðanir og byggja málflutning okkar á eigin sannfæringu. Margt af því sem ég les, eins og sagði í upphafi ræðu minnar, og er í málflutningi þeirra sem eru á móti frumvarpinu hefur orðið mér tilefni til þess að flytja þá ræðu við málið. Mér finnst margt vera svolítið undarlegt frá mínum bæjardyrum séð. Liður í því að hlusta er þá líka að eiga samtal við það fólk sem hefur gefið álit sitt á frumvarpinu.

Tóbakið. Hv. þingmaður hefur kannski aðeins misskilið mig þegar ég nefndi það. Ég nefndi dæmi um tóbak vegna þess að þar er og var komið á frelsi í sölu á tóbaki en samt var aðgengi takmarkað með ýmsum aðferðum sem við höfum fundið upp hér og annars staðar í löggjöf og reglugerðum. Sama er auðvitað með áfengi. (Forseti hringir.) Þó að áfengissala verði gefin frjáls eru eftir sem áður fjölmargar leiðir til að takmarka aðgengi að því. (Forseti hringir.) Ég er að reyna að slá svolítið á áhyggjur þeirra sem eru á móti frumvarpinu í þessum efnum.