145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn og aftur: Mín sjónarmið eru bara innlegg í umræðuna. Það hvílir ekki sú kvöð á mér sem þingmanni að vera sammála öllum umsögnum um þetta frumvarp. Ég hef lýst því yfir að ég set til dæmis spurningarmerki við það að í þessu efni sé þetta tiltekna frelsi, sem er verið að freista þess að koma á fót hér, alger andstæða við lýðheilsu. Ég hef nefnt hér dæmi um alls konar varhugaverð efni sem verslunarfrelsi ríkir um en samt höfum við náð lýðheilsumarkmiðum. Ég er líka að segja að ég get ekki fallist á þá grunnforsendu að það sé nauðsynlegt, til að hindra aðgengi að áfengi, að ríkið annist verslunina. Mér finnst þetta órökstutt. Það er ekki deilt um að aukið aðgengi geti aukið neyslu þó reyndar séu dæmi um, meðal tiltekinna hópa Íslendinga, eins og t.d. ungmenna, að aukið aðgengi hefur ekki aukið neyslu. Ég er ekki reiðubúinn að fallast á að bara þetta frumvarp (Forseti hringir.) auki aðgengi. Það er svo fjölmargt annað sem við getum gert til að takmarka aðgengi engu að síður þó að við samþykkjum þetta.