145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var flutt af sannfæringarkrafti um mál sem þingmaðurinn hefur greinilega, ólíkt þeim sem hér stendur, mjög sterkar skoðanir á, einkanlega á því sem lýtur að frelsinu.

Ég vil spyrja þingmanninn, af því að ég get verið sammála honum um að verslunarfrelsi sé mikilvægt, hvort það skjóti þá ekki skökku við að í frumvarpinu séu settar skorður við því hverjir megi versla með þessa vöru. Þannig eru til dæmis undanskildir söluturnar. Ég spyr þess vegna hv. þingmann að ef verið er að gefa þetta frjálst á annað borð, þá eigi sala á vörunni að vera frjáls, hvort sem það eru bifreiðaverkstæði eða barnafataverslanir eða blómabúðir. Eru einhverjar sérstakar takmarkanir á því verslunarfrelsi sem ætti að innleiða með þessa vöru? Má þá ekki selja hana 24 tíma á sólarhring sjö daga vikunnar af þeim sem það vilja þar sem þeir vilja? Kirkjum eða félagsheimilum eða hvað það nú kann að vera?