145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var nú rauður þráður í málflutningi mínum. Ég sagði að það væri ekki forsenda þess að geta haft afskipti af sölu áfengis og því hvernig áfengi er selt að verslanirnar séu ríkisreknar. Það var rauði þráðurinn og grundvallaratriði í málflutningi mínum. Allt sem hv. þingmaður er að spyrja um rímar ágætlega við þann málflutning. Ég er einmitt að segja að við erum ekkert að spila frá okkur þeim möguleika að takmarka sölu á áfengi með margs konar hætti þó að verslanirnar séu ekki ríkisreknar. Mér finnst það veigamikið skref í átt að viðskiptafrelsi, já, að leyfa öðrum en ríkinu að selja áfengi á Íslandi. Afnema ríkiseinkasölu. Ríkiseinokun á áfengi. Mér finnst við alveg fyllilega komin á þann stað og mér finnst það skynsamlegt og rökrétt næsta skref miðað við allt annað.