145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fór yfir helstu rök þess að ég leggst gegn þessu frumvarpi í fyrri ræðu minni. Mér finnst ástæða til að draga fram í síðari ræðu minni stóru málin, stóru línurnar getum við sagt. Mér finnst það mikilvægt þegar við erum að meta mál á borð við þetta, sem flutningsmenn telja að snúist um að auka verslunar- og viðskiptafrelsi í landinu. Sumir stuðningsmanna þessa frumvarps telja að þetta auki líka einstaklingsfrelsi. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að ég tel ekki að staða mála eins og hún er í dag á fyrirkomulagi áfengissölu skerði á nokkurn hátt einstaklingsfrelsi þeirra sem hér búa, enda höfum við ekki beinlínis orðið vör við mikinn þrýsting frá almenningi um að breyta því fyrirkomulagi. Ég vitnaði til ágætra greina Róberts H. Haraldssonar heimspekings sem hefur skrifað talsvert um þetta mál og bent á að það sé töluverð einföldum að tala um frelsi verslunarinnar sem eitt og hið sama og frelsi almennings eða frelsi einstaklingsins. Þetta finnst mér mikilvæg rök í þessari umræðu. Mér finnast líka mikilvæg rök í umræðunni að því er gjarnan haldið fram að fyrirkomulag þessara mála hér á landi sé gamaldags en eigi að síður erum við með fjöldamörg dæmi, bæði frá öðrum ríkjum á Norðurlöndunum sem við berum okkur gjarnan saman við og frá fylkjum í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem nákvæmlega sama fyrirkomulag er við lýði og þykir ekkert gamaldags.

Ég notaði tækifærið um daginn og spurði ráðherra í norsku ríkisstjórninni sem nú situr, hægri stjórn, hvort hann hefði orðið var við það að talsverð umræða væri um þetta mál í Noregi, hvort menn teldu fyrirkomulagið gamaldags, hvort þörf væri á að breyta því. Hann sagði: Það er ekki nokkur maður að biðja um það. Þarna erum við að horfa á fylki ýmist vestan hafs eða ríki þar sem ekki nokkur maður beitir þeim rökum, enda eru það náttúrlega gömul ræðulistarrök að kalla málflutning andstæðinganna gamaldags án þess að færa nein sérstök rök fyrir því.

En stóra málið í þessu er auðvitað lýðheilsumál. Það er nú svo að víða þar sem fyrirkomulagið er allt annað en hér, þar sem áfengi er flokkað með matvöru sem dagleg neysluvara, ræða menn hvernig takmarka megi aðgengi að áfengi vegna þess að óteljandi rannsóknir, sem margir hv. þingmenn hafa farið yfir í máli sínu í þessari umræðu, sýna okkur að aðgengi er einn af stóru þáttunum þegar kemur að því að reyna að takmarka neyslu á áfengi. Við sjáum það alveg að þróun áfengisneyslu hér á landi hefur aukist talsvert. Fyrir liggja gögn til dæmis á heimasíðu landlæknisembættisins um það hvernig sú neysla hefur aukist. Af því menn vitna gjarnan í bjórinn hér og að hann hafi ekki haft áhrif á magn neyslu þá jókst neyslumagnið af sjálfsögðu eftir því sem tegundum fjölgaði og þurfti engum að koma á óvart, hvað svo sem manni fannst eða finnst um það mál sérstaklega. Það að fjölga útsölustöðum á áfengi mun líka auka neyslu. Við getum ekki litið fram hjá því.

Á Bretlandseyjum, þar sem ekki var sama fyrirkomulag og hér, var farið í þá breytingu að fjölga útsölustöðum á áfengi. Þar hefur núna verið sett á laggirnar þverpólitísk þingmannanefnd þar sem unnið er að tillögum um hvernig megi fara út úr þeirri miklu neysluaukningu sem hefur orðið. Þar eru menn að ræða áfengismálin og aðgengi því tengt.

Í Frakklandi, höfuðlandi vínmenningar í heiminum, eða það er a.m.k. mat þeirrar sem hér stendur, er farið að ræða um hvernig megi takmarka aðgengi að áfengi, ekki síst vegna þess mikla kostnaðar sem hefur orðið í heilbrigðiskerfinu vegna sjúkdóma á borð við skorpulifur og annað slíkt sem beintengja má við áfengisneyslu. Þar horfa menn ekki eingöngu til félagslegra vandamála eða þeirra vandamála sem beinlínis spretta af alkóhólisma heldur heilbrigðisvandamála, annarra heilbrigðisvandamála.

Ég verð að segja að þegar ég hitti starfsbræður mína og starfssystur í evrópsku samstarfi, í norrænu samstarfi, þá kemur það þeim á óvart að við á Íslandi séum í raun og veru að ræða að breyta þessu fyrirkomulagi, að auka aðgengi að áfengi þvert á allar ráðleggingar lýðheilsuyfirvalda, og það dugir náttúrlega að líta bara á þær umsagnir sem voru lagðar fram síðast þegar þetta frumvarp var til umræðu, þvert á ráð (Forseti hringir.) fræðimanna og þeirra sem gjörst til þekkja. Það kemur fólki á óvart. Það kemur mér eiginlega líka á óvart, frú forseti, að við séum að ræða þetta mál enn einn ganginn á Alþingi.