145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað hef ég áhyggjur af þessu. Við vorum hér fyrr í dag að ræða stöðu og fjárhagsvanda hjúkrunarheimila. Þá stóð það upp úr hverjum hv. þingmanninum á fætur öðrum að við þyrftum að hafa langtímaáætlun því að ljóst væri að kostnaður við þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar ætti eftir að aukast með fjölgun aldraðra, sem við fögnum auðvitað.

Alls staðar í Evrópu eru lýðfræðilegar ástæður fyrir því að kostnaður við heilbrigðisþjónustuna er að aukast. Á sama tíma hafa menn orðið æ meðvitaðri um nauðsyn þess að reka öfluga lýðheilsustefnu, ekki bara til þess að draga úr kostnaði, þó að það sé gott og gilt markmið, heldur líka af því það er gott og gilt markmið í sjálfu sér að efla lýðheilsu.

Núverandi hæstv. ríkisstjórn setti á laggirnar sérstaka ráðherranefnd um lýðheilsumál. Þeir sem þekkja til í þessum málaflokki vita að lýðheilsa snýst um að reka opinbera stefnu sem tekur mið af lýðheilsusjónarmiðum á öllum sviðum. Lýðheilsa snýst ekki bara um að reka áróður fyrir heilsusamlegra líferni. Stuðningsmenn þessarar tillögu vísa gjarnan til þess að forvarnir séu nægjanlegt tæki til þess að draga úr áfengisneyslu. Að vissu leyti eru forvarnir mjög mikilvægar en það verður ekki litið fram hjá öllum þeim rannsóknum sem hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu, sem sýna að aðgengi er samt mikilvægasti einstaki þátturinn í því að hafa áhrif á áfengisneyslu.

Ég nefndi áðan heilbrigðisáhrif af ofneyslu áfengis á borð við skorpulifur. Við getum nefnt margháttaðar afleiðingar fyrir heilbrigði fólks af of mikilli áfengisneyslu. Við vitum að þetta frumvarp, verði það samþykkt, mun auka áfengisneyslu. Við sjáum í raun og veru ekki alveg hvert fólk stefnir (Forseti hringir.) til þess að mæta því og hvort það sé yfir höfuð æskileg þróun.