145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sá árangur sem náðist á sínum tíma í því að draga úr unglingadrykkju er auðvitað mjög mikið fagnaðarefni og var í raun og veru árangur af samstilltu átaki foreldrasamfélagsins, skólasamfélagsins og stjórnvalda í því að breyta eðlilegum viðmiðum fyrir hegðun unglinga. Það er frábær árangur, en það gilda dálítið önnur lögmál um það þegar um er að ræða málefni barna þar sem samfélagið getur haft ótal stjórntæki í því hvernig það kemur að uppeldi barna — það er samfélagslegt verkefni að einhverju leyti, ekki einkamál foreldra — og síðan þegar um er að ræða lýðheilsumál fullorðins fólks. Það er það fyrsta sem ég vil segja. Ég tel að þessu sé ekki hægt að jafna saman að öllu leyti.

Við gætum ímyndað okkur ef við þingmenn værum settir í það, t.d. á okkar vinnustað, að hlusta skyldubundið á forvarnir eins og börn í grunnskólum gera reglubundið — mér er til efs að ég mundi sjá fulla mætingu þingmanna á slíkum forvarnafyrirlestrum ef við færum út í þá taktík.

Ég hjó eftir því að einn flutningsmanna þessa frumvarps, hv. þm. Brynjar Níelsson, sagði í orðaskiptum við hv. þingmann áðan að hann vildi ekkert endilega taka of mikið mark á rannsóknum, hann vildi bara meta veruleikann eins og hann sæi hann. Rannsóknir eru einmitt það sem við þingmenn þurfum að horfa til. Hv. þingmaður kom vel að því í svari sínu við hv. þingmann að við gætum ekki tekið ákvarðanir í þessu máli út frá okkar veruleika. Ég hef mína sögu að segja í því eins og örugglega allir aðrir hv. þingmenn þegar kemur að reynslu af neyslu og neyslu annarra og hvernig hún hefur haft áhrif á tilveru okkar. Við verðum líka að skoða gögnin og rannsóknirnar. Þegar sagt er að ekki hafi verið sýnt fram á varanlegt orsakasamband þá segi ég bara: Skilgreinið fyrir mér varanlegt. Við erum að tala um rannsóknir mörg ár og áratugi aftur í tímann. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið svona frá Kristsburði ef það er það sem átt er við með varanlegt, en (Forseti hringir.) ég held að þarna séu menn að leggja mjög mikla merkingu í það orð.