145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í dag höfum við talað um verslunar- og samkeppnissjónarmið þegar kemur að þessu frumvarpi. Nokkuð hefur verið talað um unglingadrykkju og áhrif aukinnar neyslu á heilsufar og vínmenningu, en í þeim ræðum sem ég hef hlustað á hefur lítið verið rætt um áhrif á heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi og hvað mun gerast innan veggja. Við vitum að heimilisofbeldi þrífst innan veggja heimilanna og við vitum að það er oftar en ekki áfengi sem er með í för, ofneysla þess. Ég vil biðja hv. þingmann um að velta því upp með mér hvort það sé ekki mótsögn að þessu leyti, að vísu höfum við talað um mótsögn á fleiri stöðum, en að þessu leyti vegna þess að við höfum oft þverpólitískt í þessum þingsal talað um vandamál sem tengjast heimilisofbeldi. Við höfum viljað útrýma kynbundnu ofbeldi, við höfum talað um löggæsluna, hún hafi ekki tíma til þess að sinna þessum málum og það þurfi að breyta því og efla hana til að grípa fyrr inn í þegar til dæmis börn eru á heimili og þau hafa orðið vitni að því að mæður þeirra eru beittar ofbeldi og varanlegur skaði sem af því hlýst. Telur hv. þingmaður ekki að við þurfum að draga þau sjónarmið skarpar inn í þessa umræðu?